Hugleiðing: Holl hreyfing og fyrirmyndir

Þjóðin er stolt þessa dagana og mikil gleði ríkir! Ísland á HM í knattspyrnu í fyrsta skipti! (mynd …
Þjóðin er stolt þessa dagana og mikil gleði ríkir! Ísland á HM í knattspyrnu í fyrsta skipti! (mynd fengin frá tripical.is)

Nú þegar heimsmeistaramótið í knattspyrnu er hafið og íslensku karlarnir að hefja keppni í fyrsta skiptið, þá verður mér hugsað um holla hreyfingu og fyrirmyndir. Við sjáum „strákana okkar" í öllum miðlum og verðum svo stolt. Krakkar líta upp til þeirra og halda með þeim, stæla útlit þeirra og landinn er allur á iði.

Við tökum þátt og mörg okkar horfum á leikina með mikilli eftirvæntingu, þó svo að krafan um árangur sé ekki eins hávær. Svo er auðvitað fullt af fólki sem fylgist alltaf með heimsmeistaramótinu, þetta er sannarlega mikill gleðitími . . . fyrir flesta  Húh húh húh!

Sjálfur er ég mikill knattspyrnuaðdáandi. Sem krakki fór ég alltaf út og sparkaði í bolta með vinum. Í kringum stórmót í knattspyrnu þá bjó maður til sín eigin heimsmeistaramót og þóttist vera knattspyrnuhetja á borð við Socrates, Kempes, Zoff, Rummenigge, Maradona o.fl. Í dag er árangur okkar Íslendinga í heimi íþrótta orðinn miklu meiri og fleiri eru að horfa til landsins okkar og átta sig á því að hér býr ótrúlega fjölhæft og flott fólk. Litla eyjan Ísland með þennan árangur . . . örugglega heimsmet í nær öllu – miðað við höfðatölu.

Ég fer ekki eins mikið út í dag að sparka í bolta (lesist: nær aldrei!), helst þegar ég vil þykjast vera eitthvað í hugum yngri barnanna minna. Á svölunum heima hjá mér eru tvö lítil mörk og þar er stundum sparkað. Samt hef ég ekkert sérstaklega verið að ýta fótboltanum að krökkunum mínum, eða einhverjum öðrum íþróttum. Við höfum þetta bara svo miklu meira í kringum okkur í dag. Það er frábært. Krakkarnir mínir vita ekki endilega hver Gylfi Sigurðssson er eða Sara Björk, en kannski kemur að því einhvern tíma. Ég verð þá auðvitað að viða að mér þekkingu og þykjast vita allt um þessa einstaklinga líka.

Þá er gott að eiga góðan að, og þar kemur Amtsbókasafnið sterkt inn. Við bjóðum auðvitað upp á heilan helling af bókum um knattspyrnu. Bækur um fyrirmyndir dagsins í dag (og gærdagsins líka), bækur um holla hreyfingu og gildi góðrar næringar. Við eigum mikið af efni sem tengist hollri hreyfingu og fyrirmyndum okkar og barnanna okkar.

Við skulum endilega fylgjast með leikjunum á heimsmeistaramótinu núna, við skulum endilega hvetja „strákana okkar" til dáða. En gleymum því ekki að njóta og taka hluti ekki alltof alvarlega. Munum líka að „stelpurnar okkar" hafa farið á Evrópumótið í knattspyrnu oftar en einu sinni – og þær þurfa stuðning okkar jafnmikið í haust þegar úrslitaleikur milli þeirra og Þýskalands fer fram um það hvort liðið sigrar riðilinn í undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu kvenna. Sá leikur fer fram á Laugardagsvelli og fari hann vel, þá mun litla Ísland upplifa aðra gleði eins og það er að gera núna þessa dagana. Húh húh húh!

Njótið heimsmeistaramótsins, stundið holla hreyfingu og borðið vel. Munið að brosa og jú . . . klappið höndum og öskrið húh ef þið viljið.

(ÞGJ)

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan