Haustfrí á Amtsbókasafninu - Ratleikur, bingó og ýmislegt fleira

Öll börn eru hjartanlega velkomin á Amtsbókasafnið í haustfríum grunnskólanna. Ýmislegt verður í boði.

RATLEIKUR
Hvar er Valli? Persónur úr Vallabókunum hafa falið sig á 1. hæð Amtsbókasafnsins. Við hverja persónu er spurning sem þarf að svara og skila svarblaðinu. Heppnir krakkar sem finna allar persónurnar og svara spurningunum verða dregnir út og fá vinninga.

BINGÓ!
Þriðjudaginn 19. október verður boðið upp á bingó á Amtsbókasafninu. Við spilum nokkrar umferðir og heppnir krakkar hljóta vinninga. Þátttaka er ókeypis og öll velkomin á meðan húsrými og sóttvarnarreglur leyfa.

SÖGUSTUNDIR
Sögustundir eru alla fimmtudaga í barnadeildinni og fimmtudaginn 14. október les Eydís barnabókavörður söguna um Gullbrá og birnina þrjá. 21. október er svo komið að bókinni Bjarnastaðabangsarnir byrja í skóla.

FULLT AF SKEMMTILEGUM BÓKUM
Á Amtsbókasafninu er til ógrynni af bókum fyrir börn og fullorðna. Það getur verið notalegt að hlamma sér á grjónapoka og ferðast inn í heim bókanna.

TEIKNUM SAMAN
Það er alltaf í boði að teikna í barnabókadeildinni. Búið verður að prenta úr myndir sem hægt er að lita, en svo er einnig hægt að teikna frjálst. Látum hugann reika og teiknum saman.

SPILUM SAMAN
Fjölmörg spil eru til útláns á bókasafninu. Bæði er hægt að fá þau lánuð heim og spila þau á staðnum.

BÚNINGAFJÖR
Í vetrarfríinu drögum við fram búningana okkar góðu svo ungir gestir geti brugðið sér í hin ýmsu gervi. Búningana er að finna í barnabókadeild safnsins.

SKOÐUM RAFBÓKASAFNIÐ
Til eru fullt af skemmtilegum bókum fyrir börn og ungmenni á Rafbókasafninu! Það eina sem þarf til er gilt bókasafnsskírteini, snjalltæki eða tölvu og appið Libby eða Overdrive. Þá eru þér allir vegir færir á Rafbókasafninu. Svo er alltaf hægt að biðja um aðstoð á Amtsbókasafninu.

Bækur fyrir börn og unglinga á Rafbókasafninu, smellið hér.

KAKÓ OG KÖKUR
Kaffihúsið Orðakaffi er staðsett á 1. hæð safnsins. Þar er hægt að kaupa rétt dagsins í hádeginu, panini samlokur, gómsætar tertur og smákökur. Hvernig væri að gera vel við sig og sína í haustfríinu?

Við hlökkum til að sjá ykkur!

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan