Hamlar veður för?

Myndin tekin af vef Veðurstofu Íslands, 6. júlí 2018, kl. 15:15.
Myndin tekin af vef Veðurstofu Íslands, 6. júlí 2018, kl. 15:15.

Ég held ég geti fullyrt að við höfum ekki gert vísindalega könnun á því hér á Amtsbókasafninu, um það hvort veður og þá hvernig veður ráði aðsókn á safnið. Eðlilega getur slæm stórhríð dregið úr áhuga fólks í að koma á safnið, en svo höfum við líka upplifað það að fólk lætur safnið vera á góðviðrisdögum. Við viljum öll nýta góða veðrið . . . og við vitum jú að besta veðrið er alltaf hér, er það ekki? :-)

Nú höfum við upplifað dálitla vætu en í augnablikinu er sól. Það eru alltaf gestir inni á safninu og það verður þannig í dag. En spurningin er samt sem áður góð (þó ég segi sjálfur frá): Hamlar veður för?

Stutta og einfalda svarið er: já, að einhverju leyti!

Aðsókn yfir sumarið er öðruvísi en yfir veturinn. Fólk kemur ekki eins mikið hingað til að læra eða rannsaka. Miðað við útlánatölur má gera ráð fyrir að sumarmánuðir séu ekki eins vinsælir mánuðir fyrir áhorf á kvikmyndir og þætti. Við tökum samt eftir því að margir koma hingað og leita eftir sumarfrísskemmtun, þ.e. einhverju léttmeti í bústaðinn, hvort sem um er að ræða kiljur að lesa eða myndir að horfa á.

Þegar stórhríð hefur gert vegi illfæra í bænum og útsýni mjög lítið, þá gerir maður kannski ráð fyrir því að ekki eins margir mæti á safnið. En safngestirnir fara ekkert alltaf eftir því. Það er kannski gamla harkan sem gildir: ég ætla að lesa þessa bók og þá barasta fer ég í snjógallann og ekkert múður.

Það finnst mér frábært viðhorf og við reynum alltaf, í stórhríð, rigningu og sólarblíðu, að gera dvöl safngesta hér sem besta. Þetta er ykkar staður, hér á ykkur að líða vel ... í öllum veðrum!

Hefur veður áhrif á skapið? Nei nei nei, ekki hjá okkur. Við brosum alltaf :-) 

En þessi stutta hugleiðing fyrir helgina skal enda á þessari beiðni: Hvort sem um er að ræða mjög heitan dag eða mikið frost, vinsamlegast skiljið ekki bækur/safnefni eftir í bílnum á meðan þið eruð kannski að vinna og skilið efninu svo 8 tímum seinna. Kuldi og hiti getur farið mjög illa með bækur. Þá er snjór og rigning ekki bestu vinir pappírsins, og jafnvel þótt bíllinn sé bara 20 metra frá anddyrinu okkar, þá getur hellidemba eða nokkrir dropar skemmt bækur mjög mikið.

Ég er viss um að við viljum öll fara vel með efni safnsins okkar góða.

Og veðrið? Það er alltaf best hér!

(ÞGJ)

(e.s. --- Við eigum bækur um veður . . . ;-) )

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan