Fréttaannáll Amtsbókasafnsins 2019

Árið 2019 var viðburðaríkt á Amtsbókasafninu. Á safninu fer fram ýmiskonar starfsemi og fjölþætt þjónusta. Auk þess sem gestir sækja sér gögn af ýmsu tagi þá stendur safnið fyrir viðburðum margskonar, sýningum, erindum og upplestrum svo dæmi séu tekin. Hér hafa verið tekin saman helstu atriðin í starfsemi og þjónustu safnsins fyrir síðasta ár. 

Janúar

 • Skemmtilegasta „videóleiga" bæjarins varð enn skemmtilegri því að frá og með áramótum varð ókeypis að fá dvd diska að láni á safninu. Við þessa breytingu varð mikil aukning á útlánum á mynddiskum hvern einasta mánuð miðað við árið 2018. 
 • Amtsbókasafnið fór af stað með bókaáskorunina #26bækur annað árið í röð og bætti við áskorun fyrir enn lengra komna #52bækur. Markmiðið með áskoruninni er að efla bóklestur í samfélaginu. Það er engin skylda að fara bókstaflega eftir listanum. Aðalatriðið er að lesa og þá helst aðeins meira en vanalega. 

Febrúar

 • Mikið diskóæði greip um sig þegar viðburðurinn Morðgáta á bókasafninu fór fram þann 13. febrúar. Eftir lokun breyttist bókasafnið í Disco 54. Tíminn var níundi áratugurinn og um var að ræða afmæli hins eina sanna Dr. Discos. Á meðan veislunni stóð var framið MORÐ sem gestir urðu að ráða fram úr og komast að því hver hinn seki væri. Viðburðurinn vakti upp mikla lukku og færri komust að en vildu, enda var leikurinn endurtekinn um haustið.
 • Þorgrímur Þráinsson hélt tvískiptan fyrirlestur á Amtsbókasafninu þann 20. febrúar. Í fyrri hálfleik fjallaði hann um sterka liðsheild og hvað læra megi af landsliðinu í fótbolta. Í seinni hálfleik fjallaði hann um mikilvægi þess að setja sér markmið, sinna litlu hlutunum og að vera öflugur hlekkur í sterkri keðju.

 

Mars

 • Þann 8. mars, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, opnaði sýningin Mannát og femínismi: Skessur sem éta karla í sýningarrými safnsins. Sýningin var á vegum Dagrúnar Óskar Jónsdóttur, þjóðfræðings á Ströndum. Dagrún hefur rannsakað mannát í íslenskum þjóðsögum og hvað þær geta sagt okkur um samfélagið sem þær eru sprottnar úr. 

Apríl

 • Barnamenningarhátíð fór fram á Akureyri dagana 9.-14. apríl. Á Amtsbókasafninu var haldin ritlistarsmiðja fyrir börn á aldrinum 8-14 ára. Rithöfundurinn og kennarinn Markús Már Efraím kenndi áhugasömum börnum á aldrinum 8-14 ára  hvernig skrifa eigi draugalega hrollvekju sem heldur vöku fyrir foreldrum. Viðburðinn naut stuðnings Akureyrarbæjar og var þátttaka ókeypis. Viðburðurinn Búðu til bók! fór einnig fram í safninu. Bókagerðin, sem haldin var í samstarfi við Ós pressuna, var grænn viðburður þar sem efniviðurinn var eitt og annað sem yfirleitt lendir í ruslinu; eggjabakkar, pappakassar, bönd og fleira. 
 • Eyfirski safnadagurinn fór fram á sumardaginn fyrsta þann 25. apríl. Markmiðið með deginum er að vekja athygli á fjölda fróðlegra og forvitnilegra safna sem eru við Eyjafjörð. Þema dagsins árið 2019 var: Ferðalög. Hjónin Gísli Einarsson og Guðrún Hulda Pálmadóttir gengu Jakobsveginn vorið 2017. Þau ráku ferðasögu sína í máli og myndum fyrir fullum sal á Eyfirska safnadeginum í fyrra. 
 • Þann 14. maí var Jóhann Thorarensen garðyrkjumaður var með fræðslu fyrir utan safnið um ræktun matjurta. Jóhann er upphafsmaður matjurtagarða Akureyrarbæjar sem hafa notið mikilla vinsælda frá því að þeir voru stofnaðir árið 2009. Hann hlaut hvatningarverðlaun garðyrkjunnar í fyrra. 

  

Maí

 • Í maí opnaði sýning á varðveislueintökum úr skylduskilum. Amtsbókasafnið á Akureyri er svokallað skylduskilasafn, sem þýðir að varðveita skuli eitt eintak af öllu prentuðu efni hér á landi. Dæmi um efni í skylduskilum eru: bækur, geisladiskar, hljómplötur, megaviku-bæklingar Dominos, dagskrárnar, póstkort, landakort og margt fleira.
 • Miðvikudaginn 15. maí fór fram júróvisjón söngsvar (pöbb-kviss) í safninu. Upphitun fyrir Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, sem fram fór þremur dögum síðar. 

Júní

 • Sumarlestur barna, lestrarhvetjandi námskeið fyrir börn sem voru að ljúka 3.-4. bekk, stóð yfir á Amtsbókasafninu í júní. Á námskeiðinu sem haldið er árlega, er ekki aðeins lögð áhersla á læsi í hefðbundnum skilningi, heldur einnig menningarlæsi þar sem hin ýmsu söfn bæjarins eru heimsótt. Til viðbótar er lestrarátak fyrir öll læs börn í gangi yfir allan sumartímann sem nefnist Skoppaðu á bókasafnið. Börnin skoppa á bókasafnið, velja sér bók og sækja sér þátttökumiða. Fyrir hverja bók sem lesin er má fylla út einn þátttökumiða, sem síðan gildir sem happdrættismiði. Í september ár hvert er síðan haldin uppskeruhátíð þar sem happdrættisvinningar í lestrarátakinu eru afhentir og ýmislegt annað er til gamans gert. Umfjöllun RÚV um lestrarátakið má sjá hér
 • Áður en ég dey veggurinn var afhjúpaður á Amtsbókasafninu í júní. Veggurinn var fallegur vettvangur þar sem almenning gafst tækifæri til að fara yfir farinn veg, horfa til framtíðar og deila framtíðardraumum/óskum/löngunum í opinberu rými. Verkefnið, sem stóð yfir nær allt sumarið, var framlag Amtsbókasafnsins til listasumars og naut stuðnings Akureyrarstofu. 

 

Júlí

 • Þann 31. júlí átti vinur allra bókasafna, sjálfur Harry Potter 39 ára afmæli. Af því tilefni var hinn árlegi Potterdagurinn mikli haldinn hátíðlegur á Amtsbókasafninu. Forvitnir muggar gátu tekið þátt í töfrasprotaverkstæði, töfradrykkjakennslu og quidditch auk þess að bragða á fjölbragðabaunum Berta Bott. Spennandi verður vita hvað verður í boði á Potterdeginum mikla í ár. 

Ágúst

 • Teboð brjálaða hattarans fór fram í tilefni Akureyrarvöku, þann 31. ágúst. Þá kynnti Audrey Matthews enska teboðsmenningu fyrir Akureyringum. Audrey mætti með gullfallegt 50 manna postulínstesett og bauð upp á te og enskar skonsur. Börnum var velkomið að taka þátt í hattaverkstæði þar sem veitt voru verðlaun fyrir flottasta hattinn. Auk þess sem fram fór getraun þar sem gestir giskuðu á þyngd tertu og sá sem giskaði rétt fékk að eiga tertuna. Ekkert kostaði á viðburðinn en tekið var við óskertum framlögum sem runnu beint til Grófarinnar Geðverndarmiðstöðvar og Lautarinnar. 

September

 • Í september fóru fram ýmsir viðburðir í tengslum við árvekniátakið Plastlaus september. Þann 9. september fór fram fræðsla um flokkun undir umsjón Helga Pálssonar frá Terra. Þann 12. september hélt Dagfríður Ósk Gunnarsdóttir, áhugakona um umhverfismál, erindi um vistvænan lífsstíl. Þann 24. september fór fram fataskiptimarkaður í safninu. Þátttakendur lögðu föt í púkk og völdu sér í staðinn eins margar flíkur og þeir vildu. Í lok mánaðarins, þann 26. september fræddi Hrönn Björgvinsdóttir, verðandi og nýbakaða foreldra um taubleyjur
 • Þann 8. september á alþjóðadegi læsis voru útibókasöfn vígð á þremur stöðum í bænum: við Amarohúsið, í Lystigarðinum og í Boganum. Bókasöfnin voru hönnuð og smíðuð af ungmennum í vinnuskóla Akureyrarbæjar undir stjórn Brynhildar Kristinsdóttur, smíðakennara. Í bókasöfnunum, sem aðgengileg voru yfir sumartímann, voru barnabækur sem gestir og gangandi gátu notið á ferð sinni um bæinn. 

 

Október

 • Haustfrí grunnskólanna fór fram dagana 17.-18. október og var þá ýmislegt hægt að bralla á Amtsbókasafninu. Má þar nefna bingó, úrklippusmiðju, búningafjör. Svo er alltaf vinsælt að skoða bækur, teikna, spila og jafnvel að kíkja á kaffihús.
 • Hrekkjavökunni var fagnað með hrekkjavökubíói og hrollvekjandi sögustund í lok mánaðarins. Starfsfólk Amtsbókasafnsins klæddi sig upp í hrekkjavökubúninga og hvatti unga safngesti (líka þá sem eru ungir í hjarta) til að gera slíkt hið sama.

 Nóvember

 • Íslenska spilavikan fór fram 4.-10. nóvember. Markmið vikunnar er að kynna spil og spilamenningu í sinni fjölbreyttustu mynd.
  Boðið var upp á fjölda spilatengdra viðburða víðs vegar um bæinn, þannig að sem flestir gætu fundið eitthvað við sitt hæfi. 
 • Þann 10. nóvember fór fram menningardagskrá í Hofi í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá útgáfu fyrstu ljóðabókar Davíðs Stefánssonar, Svartar fjaðrir. Í Hofi var bæði sungið og spjallað. Gestgjafinn María Pálsdóttir leikkona og frumkvöðull bauð Guðmundi Andra Thorssyni rithöfundi og alþingismanni og áhugafólkinu Pétri Halldórssyni og Valgerði Bjarnadóttur til stofu til að ræða um líf og list skáldsins frá Fagraskógi,en útgangspunkturinn var ljóðabókin Svartar fjaðrir. Kammerkór Norðurlands, tónlistarkonurnar Helga Kvam og Þórhildur Örvarsdóttir og Ólafur Sveinn Traustason ásamt Eddu Borg og Styrmi Traustasyni komu fram og léku gömul sem og frumsamin lög við ljóð Davíðs. Að viðburðinum stóðu Amtsbókasafnið á Akureyri, Davíðshús, Menningarhúsið Hof og Minjasafnið á Akureyri og var hann styrktur af Sóknaráætlun og Norðurorku.

Desember

 • Þann 5. desember voru úrslit í Ritlistakeppni Ungskálda 2019 kunngjörð á Amtsbókasafninu. Alls bárust 35 verk í keppnina eftir 16 höfunda. Engar hömlur voru settar á hvers konar textum var skilað inn, hvorki varðandi efnistök né lengd. Þeir þurftu þó að vera á íslensku. Þriggja manna dómnefnd fór yfir verkin og tilkynnti úrslit ásamt umsögn á og hlut þrjú efstu sætin viðurkenningar og peningaverðlaun. Lilla Steinke hlaut fyrstu verðlaun fyrir ljóðið „Ég heyri rödd þína í rigningunni" og er þar með Ungskáld Akureyrar 2019. Önnur verðlaun komu í hlut Söndru Marínar Kristínardóttur fyrir verkið „Tíu ára tímabil" og þriðju verðlaun hlaut Daniel Ben fyrir verkið „Hvað ef ég er ekki kona?". Verkefnið var styrkt af Sóknaráætlun Norðurlands eystra og Akureyrarbæ.
 • Vikurnar fyrir jól breyttist sýningarrými safnsins í umhverfisvæna innpökkunarstöð. Á staðnum voru blaðsíður úr afskrifuðum bókum og tímaritum, könglar, greni og fleira sem hægt var að nýta í innpökkunina. Framtakið hlaut mikla athygli úti í samfélaginu og margir gestir nýttu sér aðstöðuna. 

   

Gestafjöldi og útlánatölur

Heildarútlán fyrir árið 2019 voru 152.930 og er það aukning um 3% milli ára. Gaman er að segja frá því að útlán á spilum jukust um 137% miðað við árið á undan. Frá og með áramótum var gjaldtöku fyrir mynddiska hætt og við það jukust útlán á mynddiskum um 76% milli ára. 

Gestir Amtsbókasafnsins árið 2019 voru 103.402 og fjölgaði þeim 3% frá því árið 2018. Er þetta annað árið í röð sem að heimsóknum í safnið fjölgar (síðan árið 2014).

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan