Enginn veit hvað átt hefur ...

Margmiðlunarsýningin „Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur" opnaði þann 15. janúar og stendur til loka febrúar. Hún er án efa ein stærsta, hugsanlega stærsta sýningin sem sett hefur verið upp á Akureyri og mun örugglega vekja mikla athygli hjá íbúum Akureyrar og nærsveita. Hún er samstarfsverkefni kvikmyndagerðarmannsins og sýningarstjórans Ólafs Sveinssonar, Landverndar og SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi.

Á henni eru vel yfir 100 ljósmyndir, flestar í stærðinni A2 (42 X 60 cm.) en einnig risastórar ljósmyndir 1,2 X 1,80 metrar að stærð, fjórar stuttar kvikmyndir, þar af þrjár sem Ólafur Sveinsson gerði sérstaklega fyrir sýninguna og Náttúrukort Framtíðarlandsins á stórum snertiskjá þar sem er m.a. hægt er að fletta upp upplýsingum um virkjanir sem þegar hafa verið reistar sem og lítt eða ósnert svæði sem eru í bið- eða orkunýtingarflokkum Rammaáætlunar.

Sýningin verður á þremur stöðum: Menningarhúsinu Hofi, Amtsbókasafninu og verslunarmiðstöðinni Glerártorgi. Í Amtsbókasafninu verða 43 ljósmyndir af dýrum sem að lifa villt í náttúru Íslands sem hafa heillað börn á öllum aldri þar sem sýningin hefur verið sett upp. Eins og gefur að skilja eru fuglar þar í miklum meirihluta. Við hlið myndanna eru nöfn dýranna á mismunandi tungumálum auk upplýsinga um þau á íslensku og ensku á litlum spjöldum.

Verslunarmiðstöð eins og Glerártorg er ekki síst áhugaverður sýningarstaður vegna þess að þar koma fjölmargir sem fara að öllu jöfnu ekki á sýningar eins og þessa og ef þeim líkar það sem þeir sjá, aukast líkurnar verulega á að þeir fari líka á þá hluta hennar sem eru í Hofi og Amtsbókasafninu.

En sýningunni er ekki einungis ætlað að fanga athygli manna með glæsilegum ljósmyndum og áhugaverðum heimildamyndum, heldur verða einnig haldnir opnir kynningarfundir / málþing sem að SUNN og Landvernd standa saman að og verða send beint út á netinu.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan