Dewey og bókmenntir á ýmsum tungumálum

Fyrir flesta er eflaust nóg að rölta inn á Amtsbókasafnið, fara að nýju og/eða vinsælu bókunum, kiljunum, kvikmyndunum, tímaritunum, spilunum eða öðru ... og svo rölta út. En ... það er kannski ekki vitlaust að hlaupa yfir skipulagið hjá okkur.

Í grófum dráttum flokkum við bækur í skáldsögur og fræðibækur. Skáldsögur á íslensku (þýddar eða frumsamdar) eru að mestu leyti á 2. hæðinni, raðað upp í stafrófsröð eftir höfundum (fornafn hjá Íslendingum, eftirnafn hjá erlendum aðilum). Fræðibókunum er hins vegar raðað eftir kerfi sem kennt er við Bandaríkjamanninn Melvil Dewey og kallast Dewey-flokkunarkerfið. Það byggist á hækkandi númeraröð frá 0-999 og virkar þannig að bækur um sama/svipað efni eru á sama stað. Við röðum t.d. skáldsögum á erlendum tungumálum eftir þessu kerfi og algjörlega af tilviljun skulum við nefna fimm lönd:

- Danskar bókmenntir : 839.83
- Sænskar bókmenntir : 839.73
- Norskar bókmenntir : 839.63
- Franskar bókmenntir : 843
- Spænskar bókmenntir : 863

Þraut vikunnar felst í því að finna út af af hverju minnst er á bókmenntir frá þessum löndum ... :-)

Höfuðflokkar Dewey-flokkunarkerfisins eru þessir:
000 - Almennt efni: tölvunarfræði, bókasafns- og upplýsingafræði, blaðamennska
100 - Heimspeki, yfirskilvitleg fyrirbæri, sálfræði
200 - Trúarbrögð
300 - Félagsvísindi: stjórnmálafræði, hagfræði, lögfræði, o.fl.
400 - Tungumál
500 - Raunvísindi: stærðfræði, stjörnufræði, eðlisfræði, efnafræði, o.fl.
600 - Tækni (hagnýt vísindi): læknisfræði, verkfræði, o.fl.
700 - Listir - Skemmtanir - Íþróttir
800 - Bókmenntir (fagurbókmenntir) og stílfræði
900 - Landafræði og sagnfræði ásamt hjálpargreinum

Amtsbókasafnið er á þremur hæðum. Í kjallara eru geymslur fyrir bækur ásamt öðrum herbergjum og fatahengjum. Á 1. hæðinni er afgreiðslan og þar eru starfsmenn boðnir og búnir til að hjálpa og veita aðstoð. Þarna má finna mynddiskana, kökuform, matreiðslubækur, bækur um vinsæl áhugamál (s.s. prjón, útsaum, húsbúnað o.fl.), nýjustu bækurnar, vinsælar bækur, kiljur, jólabækur, garðabækur, listabækur, íþrótta- og skemmtiefni, tónlistarbækur og kvikmyndabækur o.fl. Ungmennadeildin er þarna, sem og fantasíudeildin, ásamt tímaritunum og auðvitað hinni geysilega vinsælu barnadeild. Á 2. hæðinni er hin eiginlega útlánadeild (með fræðibókum og skáldsögum), ásamt geymslu með eldra efni, þægilegum sófum og hægindastólum og aðstöðu fyrir fólk til að læra og sinna rannsóknum. Opið og frítt net er í öllu húsinu.

Takið svo endilega eftir skemmtilega stiganum á milli hæða: hann er merktur svo skemmtilega og svo vísar hann norður og niður ! :-)

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan