Hugleiðing: Breytingar - til hins betra?

Hér má sjá mynddiskadeildina og matreiðslubækurnar. Eins og það hafi alltaf verið svona, er það ekki…
Hér má sjá mynddiskadeildina og matreiðslubækurnar. Eins og það hafi alltaf verið svona, er það ekki? :-) (p.s. þetta gæti verið uppstillt mynd :-) )

Fyrir nokkru var ég að hugleiða um það sem gerðist á bak við tjöldin hjá okkur á safninu. En það gerist margt líka „framan við tjöldin" – t.d. breytingar. Bókasafn er staður sem fólki á að líða vel á, hvort sem það kemur til að fá eitthvað lánað, lesa eitthvað á staðnum, vinna að einhverju, hitta fólk o.s.frv.


Við starfsmenn reynum oft að meta aðstæður og gerum breytingar sem miða að því að fyrrnefnd markmið náist. Við höfum til dæmis verið að grisja safnkostinn okkar töluvert og búið til meira pláss. Í hvað er plássið notað? Hmm... til dæmis aðstöðu til að setjast niður í þægilegan sófa eða stól, leysa krossgátur, fylla mandölur, tala saman og ýmislegt fleira.


Nú hefur grisjun í mynddiskadeildinni verið töluverð og er deildin nú komin öll á einn gang, sem gerir aðgengið að henni vonandi betra. Og ef einhver vill fá yfirlit yfir það efni sem við eigum í deildinni, þá er hægur vandi að fá uppsettan lista, sem hægt er að senda í tölvupósti. Við grisjun í mynddiskadeild skapaðist pláss sem þegar hefur verið fyllt með matreiðslubókum. Og hvað þýðir það? Jú, það þýðir að gamla matreiðslubókaplássið er laust og verður mögulega notað undir ýmsar kynningar á efni hjá okkur.


Þeir safngestir sem koma reglulega eiga eftir að átta sig fljótlega á þessum breytingum, en sumir gætu ruglast eitthvað og ekki fundið það sem leitað er eftir. Þá er sjálfsagðasta mál að leita til næsta starfsmanns.


Þemaborðin okkar uppi og niðri breytast reglulega.


Við erum náttúrlega ekki að breyta bara til að breyta. Við höfum fulla trú á því að þetta sé til bóta. En við fögnum öllum ábendingum um það sem þið teljið að betur mætti fara.


Og nú er sumarið komið ... loksins!! Og við höfum fjárfest í garðhúsgögnum og vinnum í því að gera útisvæðið snyrtilegra og skemmtilegra.
En ég hugleiði samt . . . eru þessar breytingar til hins betra? Hvað finnst ykkur?


(ÞGJ)

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan