Bókmenntahátíð á Akureyri

Bókmenntahátíð á Akureyri í samvinnu við Bókmenntahátíð í Reykjavík, þann 5. september.
Bókmenntahátíð á Akureyri í samvinnu við Bókmenntahátíð í Reykjavík, þann 5. september.

Bókmenntahátíð á Akureyri er nú haldin í fyrsta sinn og er dagskrá hennar unnin í afar góðu samstarfi Amtsbókasafnsins á Akureyri og Menningarfélags Akureyrar við Bókmenntahátíðina í Reykjavík. Við þjófstörtum og hefjum leikinn hér norðan heiða degi áður en Bókmenntahátíðin í Reykjavík hefst.  

Bókmenntahátíðin fer fram í Hofi.

Tveir erlendir rithöfundar taka þátt en það eru þær Anne-Cathrine Riebnitzsky og Esmeralda Santiago.

Anne-Cathrine Riebnitzsky er danskur rithöfundur með óvenjulegan bakgrunn, en hún var í danska hernum og fór með honum til Afganistan 2007, fyrst sem óbreyttur hermaður en síðar sem ráðgjafi á vegum utanríkisráðuneytisins. Í Afganistan starfaðir Riebnitzsky meðal annars með stríðshrjáðum konum og hefur sú reynsla orðið henni að yrkisefni í verkum hennar þar sem hlutskipti kvenna og barna í stríði hefur verið áberandi stef. Frumraun hennar var ævisögulegt uppgjör við árin í Afganistan og nefndist Stríð kvennana (Kvinderens krig) en hún kom úr 2010.  Nýjasta bók Riebnitzsky, Stormarnir og stillan er nýkomin út á íslensku.

Esmeralda Santiago er þekktust fyrir endurminningabækur sínar sem fjalla meðal annars um þá reynslu að tilheyra tveimur löndum, en sjálf fæddist hún á Puerto Rico og fluttist til Bandaríkjanna með fjölskyldu sinni þegar hún var þrettán ára. Tvær endurminningabókanna hafa verið gefnar út í íslenskri þýðingu Herdísar Magneu Hübner hjá bókaforlaginu Sölku, en það eru bækurnar Stúlkan frá Púertó Ríkó og Næstum fullorðin. Í bókunum dregur Santiago upp ljóslifandi myndir úr lífi ungrar konu í New York á sjöunda áratugnum og lýsir togstreitunni sem þrá hennar eftir menntun hefur í för með sér. Nýjasta bók hennar heitir Conquistadora og er söguleg skáldsaga sem gerist á Puerto Rico en hefur enn ekki verið þýdd á íslensku.

Tveir viðburðir verða á bókmenntahátíðinni: Höfundamót, höfundar, sögupersónur, lesendur kl. 11.30 þriðjudaginn 5. september og Maður á mann þar sem þeir Arnar Már Arngrímsson rithöfundur og Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður fara á trúnó við hina erlendu gesti kl. 17.00.

Allir eru hjartanlega velkomnir á hátíðina. 

Dagskrá

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan