Bókin gegn eða með kvikmyndinni?

Amtsbókasafnið á enn tæplega þrjú þúsund titla á mynddiskaformi. Margar kvikmyndirnar (og þættirnir) eru byggðar á áður útgefnu efni ... og þetta efni reynist nær alltaf vera bók.

Umræðan um hvort sé betra, bókin eða kvikmyndin, er hundgömul en flestir eru sammála um að bókin hafi vinninginn. Þar með er ekki sagt að kvikmyndin þurfi að vera léleg eða án skemmtanagildis, en besta blandan hlýtur þó alltaf að vera sú að lesa og horfa. Eða hvað? Getur kvikmynd eyðilagt fyrir manni þann heim sem maður hafði í huganum við lestur á bók? Ef Skíri hefði verið Akureyri, Miðgarður verið Norðausturland, Hólmkell verið Gandalfur, Doddi verið Gollrir, Sessý verið Arwen og Sundlaug Akureyrar verið Mordor ... hefði þannig íslensk kvikmynd eyðilagt söguna? Eða bætt við? :-)

Amtsbókasafnið er með tugi þúsunda titla til útláns. Flestir eru í formi bóka og það má sannarlega finna hundruði titla í kvikmyndasafninu sem gera þessum bókum mismunandi góð skil. En hver sem afstaða þín er til kvikmynda sem byggðar eru á bókum, þá er möguleikinn fyrir hendi að bera saman þessa tvo miðla hér á Amtsbókasafninu: bækur vs. kvikmyndir.

Örfá dæmi: Harry Potter (bækur, spil og kvikmyndir), Hungurleikarnir (bækur og kvikmyndir), Kóngulóarmaðurinn (teiknimyndasögur og kvikmyndir), Kristnihald undir jökli (bók og kvikmynd), The Bourne Identity / Milli lífs og dauða (bók og kvikmynd/ir) ... o.s.frv.

Að horfa á kvikmynd er góð skemmtun ... en ... lestur er bestur!

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan