Bókavörður mælir með... | Lífsþorsti: Sagan um Vincent Van Gogh e. Irving Stone

Hér birtum við annan bókadóm eftir Þórð Sævar Jónasson, ljóðskáld, þýðanda og bókavörður á Amtsbókasafninu.

Bókavörður mælir með:

 

Irving Stone
Lífsþorsti
-Sagan um Vincent Van Gogh-
Fyrri hluti
320 bls 

Sigurður Grímsson íslenskaði
Mál og Menning – 1947
Kom fyrst út 1934

 

Það skýtur ef til vill skökku við að skrifa ritdóm um bók sem maður er hálfnaður með. Ég kláraði fyrri hlutann í gær. Hesthúsaði hann. Gat ekki lagt bókina frá mér. Ég las hana í sófanum, við matarborðið, í bílnum á leiðinni til tengdó, heima hjá tengdó, í bílnum á leiðinni heim frá tengdó, á klósettinu, uppi í rúmi, inni í þvottahúsi meðan ég beið eftir að þurrkarinn kláraði, og svo hafði ég hana opna á eldhúsbekknum meðan ég var að vaska upp í gærkvöldi.

    Þekking mín á Van Gogh risti ekki djúpt áður en ég byrjaði á Lífsþorstanum. Ég fór á Van Gogh safnið fyrir ellefu tólf eða þrettán árum. Ég hlýt að hafa verið gullfiskur í fyrra lífi, því ég man nánast ekkert eftir því. Ég vissi að hann hefði átt bróður sem reyndist honum vel, og að hann hafi ekki gengið heill til skógar. (Er einhverjum ekki kunnugt um að hann hafi skorið af sér eyrað?) 

    Þar með er það upptalið.

    Lífsþorsti flokkast sem ævisaga í skáldsögubúningi. Í stuttum inngangi að verkinu segir Stone að meginheimild hans hafi verið bréf Van Gogh til bróður síns, en hann hafi einnig viðað að sér ýmsum heimildum í Hollandi, Belgíu og Frakklandi. 

    Lesandinn fylgir Vincent eftir um tíu ára skeið, frá 1873 til 1883. Eitt af meginþemum bókarinnar er brúarbrennur; ég hef ekki tölu yfir allar brýrnar sem Vincent brennur að baki sér. Ástarsamböndin hans fara í hundana, hann kemur sér í ónað hjá yfirmönnum sínum og kennurum, og hann á litla sem enga samleið með fjölskyldu sinni.

    En þótt hann hafi brennt allar þessar brýr að baki sér er ekki þar með sagt að Vincent hafi farið óalandi og óferjandi. Hann var vissulega þvermóðskufullur og uppreisnargjarn, en hann mætti líka miklu andstreymi, fordómum og skilningsleysi. Síðan var honum á löngum köflum ekki sjálfrátt, ýmist sökum peningaleysis, heilsuskorts eða geðrænna vandamála. 

    Sá eini sem stendur alltaf við bakið á honum er Theo, litli bróðir hans. Þeir eru tengdir órofaböndum. Hann var sá eini sem bar skynbragð á hæfileika bróður síns, og hafði óbilandi trú á honum. Þeir gátu ekki án hvors annars verið.

    Lífsþorsti er líka ferðasaga. Vincent er á stanslausu flandri. Hann selur snobbuðum og smekklausum yfirstéttarkonum forljót málverk í London, hann stúderar, teiknar og málar í Haag, og hann vinnur sem prestur í námubænum Berinage í Belgíu. Lýsingarnar á lífi og aðbúnaði námumannanna í Berinage er einhver kynngimagnaðist kafli sem undirritaður hefur lesið. Þrældómurinn, eymdin og umkomuleysið er algert. Mér fannst ég hreinlega vera kominn að forgarði helvítis. 

    En fyrst og síðast er Lífsþorsti óður til listarinnar. Vincent er reiðubúinn að fórna öllu (og þá meina ég bókstaflega öllu) til að ná fullkomnun í list sinni. 

 

**

 

Textinn er rismikill, ljóðrænn og fallegur og þýðing Sigurðar Grímssonar er hreinasta afbragð. Útlitslýsingar Stone eru mjög ítarlegar, það ítarlegar að mér varð hugsað til lýsingar Konráðs Gíslasonar á Jónasi Hallgrímssyni: 

 

„Jónas var gildur meðalmaður á hæð, þrekvaxinn og limaður vel, en heldur feitlaginn á hinum seinni árum sakir vanheilsu, vel rjettur í göngu, herðamikill, baraxlaður, og nokkuð hálsstuttur, höfuðið heldur í stærra lagi, jarpur á hár, mjúkhærður, lítt skeggjaður og dökkbrýnn …” 

 o.s.frv.  

Mér er mjög gegn skapi að skipa fólki fyrir verkum, en þetta er einfalt mál, stattu á fætur, vippaðu þér í flíspeysuna, hentu þér í kraftgallann, reimaðu á þig kuldaskóna, smelltu mannbroddunum á sinn stað, skelltu lambúshettunni á þig, trítlaðu á bókasafnið og fáðu þessa bók lánaða.

17.mars 2020
Þórður Sævar
Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan