Bókavörður mælir með... Hrakfallabálkur e. Rósberg G. Snædal

Þórður Sævar Jónasson, ljóðskáld, þýðandi og bókavörður á Amtsbókasafninu fer nú af stað með reglulega bókadóma/bókameðmæli. Hér birtist fyrsta bókarumfjöllunin. 

Bókavörður mælir með:

Hrakfallabálkur – Slysfarir, harðindi og önnur ótíðindi í Húnavatnsþingi 1600-1850
Rósberg G. Snædal
Skjaldborg – 1969
166 bls.

Hrakfallabálkur Rósbergs G. Snædals kemur til dyranna eins og hann er klæddur. Það er leitun að gegnsærri titli (og undirtitli). Hér er ekki töluð nein tæpitunga, bókin fjallar nákvæmlega um það sem hún segist fjalla um og ekkert annað.

Tónninn er sleginn strax á kápu bókarinnar, sem er, þótt ótrúlegt megi virðast, gegnsærri en titillinn: svartur grunnur, hvítar útlínur Húnaþings, nafn höfundar, og þrjár höfuðkúpur innan sýslumarka.

 Skýrara verður það ekki.

Og svo hefst upptalningin: Þessi varð úti, þessi fyrirfór sér, þessi var brenndur á báli, þessi rak ljáinn í lær sér og blæddi til ólífis, og restin drukknaði í ám.

Blanda er alltumlykjandi í þessum niðurdrepandi en áhugaverða bálki. Hún ummyndast í hálfgert dauðafljót þegar líður á lesturinn.

Stíllinn er knappur og blátt áfram. Engin tilfinningasemi. Enginn barlómur. Enginn orðavaðall. Engin tæpitunga:

 6.marz 1824. Guðmundur Sigurðsson vm. frá Efri-Torfustöðum í Miðfirði varð úti, 22. ára. Jarðaður 13. s.m.  -  Kb. Staðarbakka

Rósberg G. Snædal (sem gæti hæglega verið nafn á karakter í skáldsögu eftir Braga Ólafsson) skrifar fróðlegan formála, og aðfararorð að hverri öld.

Rósberg hefur bersýnilega verið mikill húmoristi. Endrum og eins skýtur hann inn laufléttum athugasemdum, sem eru sumar hverjar undursamlega óviðeigandi:

„17. Maí 1837. Guðmundur Jónsson vm. á Útibleiksstöðum á Heggstaðanesi, 35 ára, drukknaði milli hafísjaka. Jarðaður 16.okt um haustið „flestöll beinin“ (...) Ath: Sigurður fæðist 17., giftir sig 17. og deyr 17. Allt er þegar þrennt er, - annars hefði hann líklegast eignast 17 börn.“

Að sama skapi er yndislega óskammfeilið að nefna bók, sem fjallar að langstærstum hluta um mannlega eymd, Hrakfallabálk.

Slá titlinum bara upp í orðagrín.

Sprella aðeins.

Annars mæli ég heilshugar með Hrakfallabálknum. Hann er minnisvarði harða lífsbaráttu, og hverfulleika lífsins.

 

02.03.20.

-Þórður Sævar

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan