Bak við tjöldin: Hugleiðing

Hefurðu velt því fyrir þér hvað gerist bak við tjöldin hjá hinum og þessum aðilum? Við hér á Amtsbók…
Hefurðu velt því fyrir þér hvað gerist bak við tjöldin hjá hinum og þessum aðilum? Við hér á Amtsbókasafninu höfum tjöld og við erum stundum bak við þau. Reyndar ansi oft - en skyggnumst aðeins hérna bakvið. ( Mynd fengin að láni © Warg )

Hefur þú velt því fyrir þér hvað gerist á bak við tjöldin hjá starfsmönnum bókasafna? Eflaust er hægt að skrifa um það bækur og gera kvikmyndir, en við getum bara kíkt stuttlega á það hvað hið venjulega bókasafn . . . segjum . . . ja . . . já, segjum bara bókasafn eins og Amtsbókasafnið á Akureyri, hefur að geyma – bak við tjöldin.


Þegar þú kemur gangandi að hlýlegum aðalinngangi Amtsbókasafnsins á Akureyri, þá opnast sjálfkrafa hurð fyrir þér og þú gengur inn í bjarta hlýjuna. Þú ferð inn, velur þér mögulega bækur til að lesa, tímarit til að fletta eða kvikmynd til að horfa á og ferð svo heim. En það gerist ekki allt sjálfkrafa. Vinnan á bak við þetta er töluverð. Bækurnar labba til dæmis ekki úr hausi höfundar og upp í hilluna hjá okkur . . . nei nei, það er margt sem gerist þarna í millitíðinni.


Bækur
Við skulum samt ekki fara út í hvað gerist hjá bókaforlögunum eða bókaverslunum. Hvað varðar bækurnar þá hefst vinnan hjá svokallaðri bókavalsnefnd. Sú nefnd fer yfir hvað er verið að gefa út, ákveður hvaða bækur eigi að kaupa til útlána og hversu mörg eintök af hverri bók. Vinsælustu skáldsögurnar eru til dæmis keyptar í 7-8 eintökum. Að þessu loknu hefur nefndarmeðlimur samband við bókaverslun bæjarins, pantar bækurnar sem koma svo í hús stuttu seinna. Þá þarf að athuga að allt pantað efni sé komið og hvort það sé til í bókasafnskerfinu. Ef ekki, þá þarf að skrá bókina samkvæmt ákveðnum og ströngum stöðlum. Þegar því er lokið (eða ef bókin er til í kerfinu), þá þarf að tengja eintakið við færsluna í kerfinu (strikanúmer og „tagg"), prenta út miða, setja á bókina, mögulega plasta og svo má bókin fara í útlánadeildina. – Er þetta ekki áhugavert? :-)


Kvikmyndir, tímarit, borðspil o.fl.
Það sama á við um annað efni í rauninni. Það þarf allt að fara í gegnum ákveðið ferli áður en hægt er að lána gagnið: skráning-tenging-frágangur.


En bækur þurfa pláss og það er ekki endalaust af því hjá okkur. Það fer því mikil vinna á bak við tjöldin í að finna út hvaða efni þarf að afskrifa og rýmka þannig fyrir nýju efni . . . eða kannski þægilegum stól og borði, þar sem hægt er að sitja og fylla út mandölur og fleira. Við hugum mikið að framsetningu efnis og höfum Stuðmenn í huga: þetta má vera svolítið „wild" en snyrtimennskan er í fyrirrúmi.
Bókasöfn í dag eru nefnilega miklu meira heldur en staður fyrir bækur og önnur gögn. Þetta eru nokkurs konar miðstöðvar lýðræðis hvers bæjar- og sveitafélags. Hingað getur þú komið og slappað af, lesið bækur og/eða blöð á staðnum, unnið að verkefnum, rannsóknum og fleiru. Þú getur átt stefnumót hérna, hitt vini og vandamenn, setið og slappað af . . . aðalatriðið er að þér líði vel.
Það getur nefnilega vel verið að þú sjáir bara 1-4 starfsmenn í útlánadeildinni/afgreiðslu, en mundu að það eru 12-13 starfsmenn á hverjum degi að vinna sína vinnu, til þess eins að upplifun þín hér á bókasafninu sé eins best og hún getur verið. Inn á milli verkefna, þá fundum við, fræðumst við og reynum að læra að vera betri starfskraftar. Allt gerist þetta auðvitað á bak við tjöldin.
(ÞGJ)

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan