Áskoranir og heit - gleðilega hátíð!

Kæru safngestir! Við vonum að þið öll hafið haft það sem allra best yfir jólin. Framundan eru góðir dagar með opnu uppáhaldsbókasafni...

... sem er auðvitað Amtsbókasafnið, ekki satt??

Er nálgast nýtt ár eru margir sem íhuga áramótaheit og nýjar áskoranir. Við á Amtsbókasafninu á Akureyri höfum verið með bókaáskorun síðustu ár þar sem þið getið valið um 26 bóka áskorun eða 52 bóka áskorun. Prentuð blöð liggja á 1. hæðinni en eflaust er hægt að fá starfsmann til að senda sér jpg útgáfu af þessum áskorunum ... nú eða að hala niður þessum áskorunum þegar þær verða birtar hér á heimasíðunni í vikunni eða í blábyrjun næsta árs.

Svo eru sumir sem búa til sínar eigin áskoranir og það er hið allra besta mál. En svo eru það blessuðu nýársheitin! Margt hefur nú verið sýslað í þeim efnum í gegnum tíðina. Samkvæmt einfaldri leit á timarit.is kemur „nýársheit“ fyrst fyrir í blaði hér árið 1888, en það skal tekið fram að hér er eingöngu um þessar skönnuðu blaðsíður að ræða. Eldri heimildir eru eflaust til („áramótaheit“ kemur síðar fram).

- Ætlar þú að létta þig á árinu?
- Ætlar þú að hitta fleiri vini?
- Ætlar þú að lesa bók?
- Ætlar þú að fara til útlanda?
o.s.frv.

Ritstjóra vefsíðunnar finnst þó áramótaheitið best sem birtist á myndinni sem fylgir fréttinni (fengið frá somecards.com), þ.e. ef þú ert yfirhöfuð að velta þessu fyrir þér.

Sjáumst hress á bókasafninu. Einungis þrír starfsdagar eftir (miðvikudagur, fimmtudagur og föstudagur ... ) og svo er komið nýtt ár!

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan