Útibókasöfn, Tenerife krakkabókin og lestrarvöfflur

Frá árinu 1965 hafa Sameinuðu þjóðirnar helgað 8. september málefnum læsis. Í ár taka Íslendingar í tíunda skiptið þátt í þessum alþjóðlega degi og hafa Amtsbókasafnið á Akureyri, Barnabókasetur, Bókasafn HA, fræðslusvið Akureyrar og Miðstöð skólaþróunar starfað saman að undirbúningi ýmissa læsisviðburða í tilefni dagsins.

Viðburðir á Akureyri á Alþjóðadegi læsis, sunnudaginn 8. september

Kl. 16:00-16:15 - Útibókasöfn vígð við Amarohúsið í miðbænum – allir velkomnir!
Í tilefni af Degi læsis voru sett upp þrjú útibókasöfn á Akureyri í sumar. Bókasöfnin voru hönnuð og smíðuð af ungmennum í vinnuskóla Akureyrarbæjar undir stjórn Brynhildar Kristinsdóttur, smíðakennara.

Í bókasöfnunum verða barnabækur sem gestir og gangandi geta notið á ferð sinni um bæinn. Það má taka bækur úr bókasöfnunum, skoða þær og skila aftur en það má líka taka bækur með heim og eiga þær. Einnig má gefa vel með farnar bækur í skápana og gefa þeim þar með nýtt líf.

Verkefnið minnir á mikilvægi læsis, eykur aðgengi að bókum og hvetur til samveru fjölskyldunnar á útisvæðum bæjarins, einnig stuðlar það að sjálfbærni og umhverfisvernd þar sem notaðar bækur og endurvinnanlegur efniviður er lagður til grundvallar.

Kl. 16:15-17:00 - Penninn Eymundsson - Tenerife krakkabókin - Geggjað stuð fyrir hressa krakka
Ragnheiður Inga Matthíasdóttir, 11 ára rithöfundur, segir frá ferðahandbókinni, Tenerife krakkabókin - Geggjað stuð fyrir hressa krakka, sem hún skrifaði í samstarfi við móður sína um ævintýraeyjuna Tenerife. Bókin byggð á reynslu Ragnheiðar en hún bjó á Tenerife í ár með fjölskyldunni sinni. Bókin er skrifuð fyrir krakka og í henni er sagt frá öllu því sem krökkum finnst gaman að skoða og gera.

Ragnheiður les upp úr bókinni, segir frá tilurð hennar og svarar spurningum frá áheyrendum

Kl. 16:15-17:30 – Lestrarvöfflur í Pennanum Eymundsson
Lestrarvöfflurnar í Eymundsson eru orðnar fastur liður á Alþjóðadegi læsis á Akureyri. Boðið verður upp á sjóðheitar, ilmandi vöfflur, kaffi og notalega stemmingu í bókabúðinni frá kl. 16.15–17.30.

Sjá fréttabréf hér : https://www.smore.com/kbdfg 

Viðburðir dagsins eru styrktir af Barnamenningarsjóði Íslands, IKEA, Menningarsjóði Akureyrarbæjar, Norðurorku og Pennanum Eymundsson.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan