Alþjóðadagur læsis

Alþjóðadagur læsis 2017. Ævar Þór Benediktsson mun mæta í spjall í tilefni dagsins.
Alþjóðadagur læsis 2017. Ævar Þór Benediktsson mun mæta í spjall í tilefni dagsins.

Frá árinu 1965 hafa Sameinuðu þjóðirnar helgað 8. september málefnum læsis. Í ár taka Íslendingar í áttunda skiptið þátt í þessum alþjóðlega degi og hafa Miðstöð skólaþróunar við HA, bókasafn HA, Amtsbókasafnið, Barnabókasetur og fræðslusvið Akureyrar starfað saman að undirbúningi ýmissa læsisviðburða í tilefni dagsins.

Fundur fólksins í Hofi

Kl. 12:00-17:00 – Læsi er lykillinn
Verið velkomin að kynningarborði Alþjóðadags læsis þar sem læsisstefnan Læsi er lykillinn verður kynnt, meðal annars verður boðið upp á líflegt spjall, lestrarhorn, fríar bækur og lestrarhvetjandi efni. 

 Kl. 15:00-15:30 – Sófaspjall

Ævar Þór Benediktsson, rithöfundur og leikari, verður sérstakur gestur í sófaspjalli á Alþjóðadegi læsis. Hann mun spjalla við mann og annan um læsi og lestraránægju. Ævar Þór fékk nýverið hvatningarverðlaun JCI sem framúrskarandi ungur Íslendingur 2017.

Kl. 16:30-17:30 – Penninn Eymundsson
„Lestrarvöfflur“ verða í boði fyrir gesti og gangandi og eru allir hvattir til þess að finna sér áhugavert lesefni, koma sér vel fyrir og gæða sér á „Lestrarvöfflum“ Ævar Þór Benediktsson mætir og les upp úr sínum uppáhalds bókum. 

Viðburðir dagsins eru styrktir af Verkefnasjóði Háskólans á Akureyri.

Nánar um viðburði í tengslum við Alþjóðadag læsis: 

Læsi er lykillinn kl. 12:00-17:00 

Haustið 2014 fór af stað vinna við mótun læsisstefnu Akureyrarbæjar. Skipulag vinnunnar tók mið af hugmyndum um lærdómssamfélag þar sem lögð var áhersla á að allir sem hlut eiga að máli kæmu að vinnunni, það er leik- og grunnskólakennarar, nemendur og foreldrar, stjórnendur, fræðslusvið og Miðstöð skólaþróunar.

 Stefnan sem gefin verður formlega út á vef á degi læsis er afrakstur þriggja ára samvinnu þessara aðila.

 Á Fundi fólksins verður hægt að kynna sér stefnuna og ýmislegt spennandi tengt læsi í bás Alþjóðadags læsis.


Sófaspjall með Ævari Þór Benediktssyni kl. 15:00-15:30 

Ævar Þór Benediktsson rithöfundur og leikari hefur brennandi áhuga á að efla menntun og lestur barna. Hann hefur staðið fyrir vinsælu lestrarátaki, samið og gefið út barnabækur og unnið áhugavert barnaefni um vísindi bæði fyrir sjón- og útvarp. 

Það má með sanni segja að Ævar sé einn af helstu baráttumönnum fyrir eflingu læsis hjá íslenskum börnum og því tilvalið að taka létt sófaspjall með honum á degi læsis. Spjallað verður við Ævar á léttu nótunum um lestur, áhugahvötina, bækur, sýn hans á framtíðina og margt fleira. 

Spjallið er á óformlegum nótum og gefst gestum og gangandi tækifæri til að hitta Ævar í eigin persónu og spyrja hann spjörunum úr um lestur og lestrartengd viðfangsefni.

Lestrarvöfflur í Eymundsson  kl. 16:30-17:30

Lestrarvöfflurnar í Eymundsson eru orðnar fastur liður á Alþjóðadegi læsis á Akureyri. Boðið verður upp á sjóðheitar, ilmandi vöfflur, kaffi og notalega stemmingu í bókabúðinni frá kl. 16.30–17.30. 

Ævar Þór kíkir í heimsókn, les upp úr sínum uppáhalds bókum og spallar við gesti. Tilvalið að gæða sér á vöfflu, koma sér vel fyrir og kíkja í bækur og blöð. 

 
Bókasafnsdagurinn 2017
 
Bókasafnsdagurinn er haldinn hátíðlegur á degi læsis, 8. september og er fólk, hvar sem það er í heiminum, hvatt til þess að lesa upp, segja sögur, fara með ljóð eða á annan hátt nota tungumálið til ánægjulegra samskipta. 

Á Íslandi eru yfir 300 bókasöfn. Söfnin eru af ýmsum toga og þjóna bæði almenningi, námsmönnum og sérhæfðum verkefnum í stofnunum og einkafyrirtækjum. Á Íslandi eru mörg almenningsbókasöfn, skólabókasöfn, framhaldsskólabókasöfn, háskólabókasöfn, sérfræðisöfn og annarskonar sérhæfð bókasöfn. Líttu við á þínu bókasafni 8.september!
 
 

Hlökkum til að sjá ykkur!

 

Facebook: Alþjóðadagur læsis

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan