Ævar Þór: „Barnabækur eru mikilvægustu bækurnar!“

Með endurbættum vef má sjá nýjungar. Hluti af þeim eru áætluð viðtöl við ýmsa aðila sem tengjast Akureyri og Amtsbókasafninu á einhvern hátt. Fyrstur til að ríða á vaðið er hinn ástsæli rithöfundur og leikari, Ævar Þór Benediktsson. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Ævar skapað sér stöðu sem einn afkastamesti og vinsælasti barnabókahöfundur landsins ásamt því að vera frábær leikari. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og prófi úr leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Ritstjóri vefsíðunnar tók Ævar raf-tali og var rætt um margt milli himins og jarðar, hægri og vinstri og allt þar á milli.


Jæja, Ævar. Er ekki best að byrja á formlegheitum eins og nafni, gælunafni, aldri, starfsheiti og fjölskylduhögum?

Ævar Þór Benediktsson. Ekkert gælunafn, 37 ára, rithöfundur og leikari. Trúlofaður Védísi Kjartansdóttur, dansara og saman eigum við Hjört Forna, þriggja ára.


Hvenær vissirðu að þú ætlaðir að verða leikari? Og fylgdu ritstörfin eðlilega bara svona á eftir? Hvað þá samning leikverka?

Þegar ég komst að því að sami gaurinn talsetti alla strumpana OG væri líka tannlæknirinn í Litlu hryllingsbúðinni ákvað ég að það væri starf sem mig myndi langa til að vinna við. Ég var stundum að skrifa þegar ég var yngri, en í grunninn er þetta sama verkefnið, leiklistin og ritlistin; að segja sögu.


Finnurðu mikið fyrir ábyrgð sem fyrirmynd ungra barna? Til dæmis, ertu stoppaður á almannafæri af ungum aðdáendum ... ja, eða eldri?

Það er vissulega ábyrgð sem fylgir því en maður er ekkert að láta það stjórna öllu. Maður er auðvitað manneskja og á sér líf utan persónanna sem maður túlkar. Flestir sem maður hittir, bæði börn og fullorðnir, eru kurteisir og næs. Einhverjir vilja stoppa og spjalla og það er oftast í góðu lagi.


Til hamingju með tilnefninguna til alþjóðlegu IBBY-lestrarhvetjara-verðlaunanna 2022. Einn af fjórtán í öllum heiminum, svakalegur heiður, en ... svona á milli okkar (og allra tveggja eða fleiri lesenda síðunnar) ... er ekki smá keppnisskap í þér?

Þegar kemur að íþróttum og spilum er ég með svo lítið keppnisskap að það er varla mælanlegt. Þegar kemur að skapandi verkefnum erum við ekki endilega að tala um keppnisskap, meira metnað. Að því sögðu þá er ég duglegur á refresh-takkanum þegar sölulistar fyrir jólin mæta á svæðið, en það skiptir aldrei höfuðmáli.


Nú eru Þín eigin-bækurnar ótrúlega vinsælar og þú búinn að skrifa á annan tug af þeim. Einnig er búið að setja upp leikrit í anda bókanna. Finnst þér ekkert erfitt að búa alltaf til ný og ný ævintýri þar sem lesendur ráða ferðinni? Þarftu ekki að vanda þig sérstaklega svo það verði ekki mikið um endurtekningar?

Það getur verið flókið og þess vegna hef ég reynt að koma alltaf með eitthvað nýtt á hverju ári. Fyrir síðustu jól (VARÚÐ: HÖSKULDARVIÐVÖRUN!) var til dæmis önnur saga falin inni í Þinni eigin ráðgátu en sagan sem þú byrjaðir á að lesa. Ég vil leika mér með formið og koma lesandanum á óvart. Svo er bara spurning hvað gerist í næstu bók!


Hvernig er annars gangurinn og framvindan á skrifum þínum? Klárarðu verk og ferð beint í annað eða ertu með nokkur í vinnslu í einu?

Ég skrifa mjög hratt, sem þýðir að það tekur mig kannski 2-3 mánuði að klára eina bók. Ég ákveð titla um það bil ár fram í tímann, en er ekki mikið fyrir það að setjast niður og skipuleggja söguþráðinn fyrirfram. Í staðinn hef ég ákveðnar vörður í huga sem mig langar að verði með í sögunni, en hef ekki hugmynd um það hvernig ég mun komast þangað. Ég reyni að hugsa sem svo að ef ég veit ekki hvað mun gerast næst, er ekki séns að lesandinn fatti það. Það hefur vissulega sína kosti og galla. Ég er alltaf með nokkur verkefni í gangi í einu, eins og flestir sem eru sjálfstætt starfandi.


Árið 2018 áttirðu mest seldu barnabókina það árið, reyndar fjórar af tíu vinsælustu bókunum og svo náttúrlega á öðrum árum líka ... stígur þetta þér ekkert til höfuðs? Eða finnurðu fyrir meiri pressu?

Að sjálfsögðu er það fáránlega gaman og maður leyfir sér alveg að vera montinn, án þess þó að það fari út í vitleysu. Að sama skapi kemur pressa; pressa á að gera enn meira, enn skemmtilegra, enn fjölbreyttara, eitthvað nýtt og öðruvísi, en samt svipað og ekki of flippað því þú vilt ekki missa lesendurna sem hafa fylgt þér öll þessi ár. En að sama skapi er kannski einmitt fullkomið að hrista aðeins upp í hlutunum og koma dyggum lesendum einhvern veginn á óvart. Og hugsanlega, bara hugsanlega, er ég að ofhugsa þetta allt saman. Það gæti verið. Hugsanlega. Já.


Evana Kisa skreytir Þín eigin-bækurnar og Rán Flygenring bækurnar um bernskubrek Ævars vísindamanns. Komu þær til greina fyrir stuttu hrollvekjurnar eða var Ágúst Kristinsson í alvöru sá eini sem þorði??

Mér finnst gaman að vinna með mismunandi teiknurum að mismunandi seríum. Þá veit lesandinn að hér er eitthvað glænýtt á ferðinni, vissulega eftir mig, en eitthvað öðruvísi og spennandi. Ég efast ekki um að Evana eða Rán hefðu lagt í að myndlýsa Hrollvekjurnar, en ég þorði bara ekki að spyrja þær.


Nú eru fullorðins-bækur töluvert dýrari en barnabækur. Síðast þegar ég vissi þá kostaði prentun á blaðsíðu í barnabók jafnmikið og prentun á blaðsíðu í fullorðinsbók. Ég veit þú hefur talað um þetta áður (málþingið „Barnabókin er svarið" 2017) en af hverju heldur þú að barnabækur þyki ekki jafn merkilegar og fullorðinsbækur? Ef eitthvað er, þá fylgir meiri ábyrgð því að skrifa texta sem grípur börn sem nýbyrjuð eru að lesa og vilja viðhalda áhuganum. Er eitthvað sem mælir á móti því að Þín eigin ráðgáta og Sigurverk Arnaldar séu seldar á sama verði?

Í fyrsta lagi eru bækur alltof dýrar - hvort sem það eru fullorðins eða barnabækur. Og þá er ég að tala um hérna á Íslandi. Maður fattar það kannski ekki alveg fyrr en maður fer erlendis og rekst á stórar, nýjar harðspjalda bækur á 2500 kall, sem hér heima myndu slaga upp í 7 eða 8 þúsund kallinn. Og ég geri mér vel grein fyrir því að fyrir því eru margar ástæður, en það gengur samt bara ekki upp að bók sem þú lest kannski einu sinni kosti svona fáránlega mikið. Ef það væri ekki fyrir jólabókaflóðið myndi það ekki ganga upp fjárhagslega fyrir íslenska höfunda að stunda vinnuna sína - og satt best að segja gengur það eiginlega ekki upp nú þegar.

Barnabækur eru mikilvægustu bækurnar, því þær eru grunnurinn. Og ef þú ert ekki með grunninn hrynur húsið. Þess vegna þarf að gefa út miklu fleiri barna- og ungmennabækur, allan ársins hring, ekki bara korter í jól. Og forlög þurfa að setja miklu meiri pening í myndlýsingar, bæði í barna- og ungmennabókum. Maður fer næstum bara að gráta þegar maður flettir erlendum barnabókum og sér mynd á hverri einustu blaðsíðu, á meðan þær eru kannski ein í hverjum kafla í þessum íslensku - ef maður er heppinn. Í gegnum árin hef ég rekið mig á það að allt sem tengist barnamenningu, hvort sem það eru bækur, þættir, bíómyndir eða tónlist er litið öðrum augum en „alvöru" menningin. Við fáum færri dóma, minni pening og njótum ekki eins mikillar virðingar. Hvers vegna? Góð spurning. Mjög góð spurning.


Í viðtali frá árinu 2003 var talað um sveitapiltinn úr Borgarfirði ... eitthvað meira um það að segja?

Neibb. Ólst upp í sveit. Í Borgarfirði. Sem piltur. Þetta meikar allt saman sens.


Þú hefur ekki bara staðið fyrir stórkostlegu lestrarátaki, heldur einnig duglegur að ljá krafta þína við ýmis málefni, eins og t.d. Blár apríl, jólakort til styrktar Ægis Þórs (10 ára stráks með Duchenne, ólæknandi vöðvarýrnunarsjúkdóm), sendiherra UNICEF á Íslandi ... er það þér eðlislægt að hjálpa náunganum, þeim sem minna mega sín? Og væri svo ekki sniðugt að fá vísindamanninn Ævar til að klóna þig? (til að gera heiminn betri sko).

Ég veit ekki hvort það er eðlislægt, en mér finnst sjálfsagt að hjálpa fólki ef maður hefur mögulega tök á því. Þig munar kannski ekkert um það, en það getur skipt öllu máli fyrir einhvern annan. Og ég á nú þegar tvö klón. Þau taka ýmisleg verk að sér. Annað þeirra er til dæmis að svara þessu viðtali.


Talandi um Ævar vísindamann, þá hef ég leitað til Vísindavefsins fyrir ansi margt. Þar rakst ég á grein sem var gefin út á vefnum 1. apríl 2018. Þú veist væntanlega hvaða grein ég er að tala um, en af hvaða tilefni var hún skrifuð? Er þetta ekki ákveðinn hápunktur?

Að sjálfsögðu! Þetta var yndislegt samstarfsverkefni sem ég er afar ánægður með. Ég hef sagt það í meira en áratug að Vísindavefur HÍ sé besta vefsíða veraldarvefsins. Ég stend enn við það.


Eftirminnilegasta hlutverkið þitt til þessa? Eitthvað sem þér þykir vænna um en annað?

Mér þykir mjög vænt um Lilla klifurmús í Dýrunum í Hálsaskógi og mennska hrossið Blóra í Monty Python-söngleiknum Spamalot. Og auðvitað Ævar vísindamann. Og síðustu vikurnar hefur mér þótt sífellt meira vænt um hann Gústa kallinn í Svörtu söndum.


Hversu mikið er af þér í Birni, Óðni og Gústa? (Jarðarförin mín, Dagvaktin, Svörtu sandar)?

Það er alltaf eitthvað af manni í persónum sem maður leikur, því maður verður einhvern veginn að réttlæta gjörðir persónanna fyrir manni sjálfum svo maður geti staðið með þeim og skilað rullunni af heilu hjarta. Björn í Jarðarförinni byrjaði í grunninn sem eitt orð: Þreyttur. Þaðan vann ég persónuna og hugtakið byrjaði svo að teygjast í ýmsar áttir. Óðinn í Dagvaktinni var nokkurn veginn bara ég að fríka út yfir því að fá að vera með í þessum geggjuðu þáttum og það smitaðist yfir í persónuna. Gústi í Svörtu söndum er metnaðargjarn, en á sama tíma þvælist hann fyrir sjálfum sér. Ég tengi við það. Svo hjálpar handritið manni að toga persónuna í aðrar áttir en maður myndi kannski sjálfur fara.


Án þess að gefa upp alltof mikið um innihaldið í Svörtu söndum, hvað var það sem heillaði þig mest við að taka þátt í því verki? Þú virkar vel á þig kominn í hlutverki Gústa, en ég hef heyrt (aðallega á samfélagsmiðlum) að fólk eigi erfitt með að sjá þig svona og talar um að „svona gerir maður ekki, Ævar vísindamaður!" o.s.frv. Hefurðu heyrt þetta beint frá einhverjum og er ekki líka ágætis frelsistilfinning að leika einhvern sem er svo gjörsamlega ólíkur því sem þú hefur áður gert?

Baldvin Z er afar klár leikstjóri og það var hann sem heillaði mig við þetta verkefni. Jú, og svo auðvitað að fá að gera eitthvað allt öðruvísi en ég hef verið þekktur fyrir hingað til. Það er mjög frelsandi og ef einhverjum hefur brugðið þegar ég mætti á svæðið er það bara af hinu góða. Mig grunar að það sé nákvæmlega það sem Baldvin ætlaði sér.


Nú hefurðu sinnt talsetningum af fullum krafti. Er jafn mikil ástríða hjá þér í þeim verkum eins og að leika á sviði eða í þáttum/myndum og skrifa? (aukaspurning tengd þessu: finnst þér ekki að talsett og íslenskt barnaefni ætti að vera aðgengilegt á mynddiskaformi?)

Ég reyni að vanda mig eins mikið og ég mögulega get þegar ég talset og legg mikinn metnað í það. Auðvitað ætti þetta efni allt að vera til á DVD líka, en ég verð samt að viðurkenna að streymisformið er yndislega þægilegt upp á að hlutir týnist ekki og/eða skemmist.


Hvað bjóstu lengi á Akureyri og hver er svona þín fyrsta minning af Amtsbókasafninu?

Ég bjó hátt í sex ár á Akureyri og reyni að komast þangað eins oft á ári og ég mögulega get. Mér líður hrikalega vel þar og þykir afar vænt um árin mín sem ég bjó þar. Ég var fjögur ár á vistinni og svo eitt og hálft ár hér og þar eftir útskrift. Svo vann ég á Hótel Eddu nokkur sumur. Mín fyrsta minning af Amtinu er af teiknimyndasögudeildinni - sem er á heimsmælikvarða!


Hvaða ráð hefur þú handa krökkum sem líta upp til þín og eiga sér ritlistar- og leiklistardrauma? Einhver sérstök uppskrift sem þau geta fylgt eftir?

Lesið. Horfið á þætti og myndir. Hlustið á hlaðvörp þar sem tekin eru viðtöl við fólk sem skapar. Og ekki vera hrædd við að prófa og gera mistök. Það eru svo margir sem setjast niður og ætla að skrifa hina fullkomnu fyrstu setningu. Ef þú gerir það, mun hún aldrei koma. Prófaðu frekar að byrja bara og laga eftir á. Það er ekkert verra en tóm blaðsíða. Það er miklu auðveldara að laga lélega síðu en tóma síðu. Ef þú setur þér það markmið að skrifa í 10 mínútur án þess að stoppa ertu strax kominn með eitthvað sem þú getur svo unnið úr. Fyrsta uppkast er alltaf út um allt og það er allt í lagi. Til þess eru yfirlesarar, ritstjórar og allir hinir sem munu hjálpa þér að landa þessari sögu sem þú ert með í kollinum.


Hvað er framundan fyrir Ævar Þór Benediktsson, persónulega og atvinnulega?

Persónulega ætla ég að reyna að vera duglegri í að leggja símann frá mér og slaka. Njóta. Anda.

Atvinnulega er frumsýning á nýju verki eftir Elísabetu Jökulsdóttur í Tjarnarbíói 11. febrúar næstkomandi, sem heitir Blóðuga kanínan. Þetta er afar fallegt og furðulegt verk, sem við erum spennt að fá að sýna fólki. Ég er að leikstýra og skrifa lítilli barnasýningu sem heitir Forspil að framtíð og verður frumsýnd um miðjan mars í Norræna húsinu. Framhaldið af sjónvarpsseríunni Jarðarförinni minni, Brúðkaupið mitt, verður frumsýnt um páskana á Sjónvarpi Símans og hún lofar góðu. Svo eru væntanlegar fjórar bækur á árinu; í vor kemur bókaútgáfa af hrollvekjunni Skólaslit sem ég skrifaði nánast í rauntíma í október síðastliðnum og flestir skólar landsins lásu og hlustuðu á á hverjum morgni á netinu, tvær nýjar stuttar Þín eigin-bækur koma næsta haust og svo mætir níunda stóra Þín eigin-bókin á svæðið líklega í októberlok. Ég hef enn ekki hugmynd um hvað hún á að heita eða hvað gerist í henni.


Nú gefur Amtsbókasafnið þér verðugt verkefni: Þú átt að skrifa bók/sögu um misskildu hetjuna Svarthöfða sem glímir við dularfulla bófann Clark Kent. Mjallhvít er ástin í sögunni og þetta gerist auðvitað á Akureyri. Er þetta framkvæmanlegt?

Ef við setjum bókina beint á netið og köllum hana fan-fiction; algerlega! Ef við ætlum hins vegar að gefa hana út og fá pening fyrir hana megum við nota persónuna Mjallhvíti en DC og Disney væru fljótir að banka uppá ef við myndum voga okkur að nota Clark og Svarthöfða. Að því sögðu, það má vissulega ýja að því hverjir þeir eru án þess að segja það beint út og þá gætum við notað þá. Þetta er sama og ég þurfti að hafa bak við eyrað þegar ég skrifaði Þinn eigin tölvuleik; mig langaði t.d. að vísa í þekkta tölvuleiki eins og Fortnite, Mario Bros og Resident Evil, en mátti auðvitað hvorki nota persónur né nöfnin á leikjunum því þau eru vernduð í höfundalögum. Þá þarf maður að vera sniðugur og í staðinn fæddist t.d. Hopp og skopp-borð þar sem Mario hafði mikil áhrif án þess að koma nokkurs staðar við sögu. Annað borð var eins og blanda af Fortnite og WoW þar sem hvorugur leikjanna var nokkurn tímann nefndur og svo bjó ég til svokallað Prinsessuborð, sem á ættir sínar að rekja til RE. Stundum fæðist eitthvað enn skemmtilegra þegar manni eru settar reglur eða takmarkanir.


Ef það er eitthvað annað, sem þér finnst endilega að mætti koma fram, þá máttu skrifa það hér.

Amtið er með bestu teiknimyndasögudeild á landinu og þótt víðar væri leitað. Það má hrósa því endalaust! Svo er þessi Doddi sem vinnur þar ekkert svo slæmur.

 

- Við þökkum Ævari kærlega fyrir raf-spjallið og óskum honum góðs gengis í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur. Áhugasamir ættu endilega að líta á heimasíðuna hans og líka heimasíðu vísindamannsins : www.aevarthor.com og www.visindamadur.com

 

(Svarthvíta myndin sem fylgir viðtalinu er tekin af Sögu Sig. - aðrar myndir voru fengnar með góðfúslegu leyfi af Facebook-síðu eða heimasíðu Ævars).

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan