Öldrunarheimili Akureyrar

Öldrunarheimili Akureyrar
Austurbyggð 17, sími 460 9100, hlid (hjá) akureyri.is
Framkvæmdastjóri: Halldór Sigurður Guðmundsson
Öldrunarheimili Akureyrar (ÖA) eru hluti af velferðarþjónustu Akureyrarbæjar og veita íbúum ýmiss konar þjónustu og ráðgjöf á sviði öldrunarþjónustu. Á ÖA eru starfrækt hjúkrunar- og dvalarrými fyrir aldraða og aðra einstaklinga sem hafa viðurkennt mat á þörf. Þar eru almenn og sértæk rými í dagþjálfun fyrir aldraða og einstaklinga með heilabilun. Auk aldraðra Akureyringa eiga aldraðir íbúar nágrannasveitarfélaga kost á þjónustu á öldrunarheimilunum samkvæmt sérstökum samningi við nágrannasveitarfélögin.
Öldrunarheimilin starfa á grundvelli hugmyndafræði Eden og þjónandi leiðsagnar með áherslu á eflingu og stuðning til sjálfsbjargar og sjálfstæðis íbúa og notenda þjónustunnar. Framtíðarsýn ÖA er að vera leiðandi í hjúkrunar- og öldrunarþjónustu á Íslandi þar sem öll umönnun, almenn sem sérhæfð byggir á fræðilegum grunni. Þannig sé á hverjum tíma veitt heildstæð hjúkrunar- og öldrunarþjónustu sem stuðli að auknum lífsgæðum íbúa og annarra þjónustuþega.
ÖA eru rekin af Akureyrarbæ samkvæmt sérstökum samningi við heilbrigðis- og velferðarráðuneyti og starfa á grundvelli laga og kröfulýsinga og stefnumiða um þjónustu við aldraða. Velferðaráð Akureyrarbæjar hefur yfirumsjón með rekstri öldrunarheimilanna fyrir hönd bæjarins.