Völundarhús plastsins

Jónborg Sigurðardóttir.
Jónborg Sigurðardóttir.

Á morgun, laugardaginn 30. janúar kl. 15, verður opnuð í Listasafninu á Akureyri, Vestursal, sýning Jonnu – Jónborgar Sigurðardóttur Völundarhús plastsins. Sýningin er innsetning sem ætlað er að gera áhorfendur meðvitaða um umhverfisáhrif plastnotkunar.

Undanfarin ár hefur Jonna unnið ýmis verk innblásin af ofneyslu og sóun. Hún vill vekja athygli á að hver manneskja getur lagt sitt af mörkum í umhverfismálum, svo sem með endurnýtingu og notkun fjölnota innkaupapoka. Hún mun vinna verk úr endurunnu plasti í „klefanum“ í Vestursal Listasafnsins meðan á sýningu stendur.

Jonna útskrifaðist úr fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri vorið 1995 og sem fatahönnuður frá Københavns Mode- og Designskole 2011. Myndlist hennar spannar vítt svið, allt frá málverki til innsetninga. Hún hefur verið mjög virk í listalífinu á Akureyri síðustu árin; haldið einkasýningar, tekið þátt í samsýningum og staðið fyrir uppákomum.

Sýningin Völundarhús plastsins stendur til 11. febrúar og er opin þriðjudaga til sunnudaga kl. 12-17. Leiðsögn um sýningar Listasafnsins á Akureyri er alla fimmtudaga kl. 12.15-12.45. Aðgangur er ókeypis.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan