Viðurkenningar til ferðaþjónustunnar

Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri, Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri MN, Dagný Marín Sigmar…
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri, Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri MN, Dagný Marín Sigmarsdóttir frá Spákonuhofi, Þórdís Bjarnadóttir bókanastjóri Hölds, Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli og Halldór Óli Kjartansson frá MN.

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi var haldin fimmtudaginn 23. október síðastliðinn. Að þessu sinni var ferðinni heitið í Austur-Húnavatnssýslu og tóku heimamenn vel á móti gestunum sem voru yfir 100 ferðaþjónustuaðilar frá öllu Norðurlandi.

Meðal staða sem hópurinn sótti heim var Hótel Blönduós, Heimilisiðnaðarsafnið þar sem m.a. var fræðst um Halldóru Bjarnadóttur og Textílsafnið sem skartaði refli um Vatnsdælu sem er enn í vinnslu. Spákonuhof tók vel á móti gestum á Skagaströnd þar sem nýi veitingastaðurinn Borgin bauð hópnum síðan heim. Laxasetur Íslands og Ísgel fræddi gestina um starfsemina og áður en kvöldið var úti heimsóttu gestir Eyvindarstofu og glæsilega sundlaug Blönduósbúa. Húnvatnssýslur Eystri hafa mikið upp á að bjóða og ekki náðist að kanna alla þá fjölbreyttu þjónustu og afþreyingu sem þar er á einum degi.

Að venju voru viðurkenningar Markaðsstofu Norðurlands (MN) veittar:

Viðurkenningu fyrir Sprota ársins fékk Spákonuhof og veitti Dagný Marín Sigmarsdóttir viðurkenningunni móttöku. Sproti ársins er veittur eftirtektarverðri nýjung á Norðurlandi.

Menningarfélagið Spákonuarfur á Skagaströnd opnaði Spákonuhof sitt þann 30. júní 2011. Spákonuhofið er liður í sögu og menningartengdri ferðaþjónustu þar sem efniviðurinn er sóttur í söguna og er þar unnið með Þórdísi spákonu, fyrsta nafngreinda íbúa Skagastrandar, sem uppi var á seinni hluta 10. aldar. Þórdís var kvenskörungur mikill og stóð jafnfætis helstu höfðingjum. Hennar er víða getið í Íslendingasögum, bæði lof og last, en kunnust er hún líklega fyrir að hafa fóstrað Þorvald víðförla, fyrsta íslenska kristniboðann.

Í Spákonuhofinu er sögusýning með leiðsögn um Þórdísi spákonu og er miðpunktur sýningarinnar afsteypa af sögupersónunni framan við hús sitt. Eins er ævi hennar rakin á myndrænan hátt með refli sem prýðir veggi hofsins. Refillinn samanstendur af 20 vatnslitamyndum og texta eftir Sigurjón Jóhannsson myndlistarmann og leikmyndahöfund. Söguna er svo einnig hægt að upplifa með upptöku af leikriti um Þórdísi spákonu, sem Spákonuarfur setti á svið haustið 2008 og er til sýnis í Spákonuhofinu.

Viðurkenningu sem fyrirtæki ársins fékk Bílaleiga Akureyrar – Höldur en þessi viðurkenning er veitt til fyrirtækis sem hefur skapað sér stöðu á markaði og hefur unnið að stöðugri uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun. Bílaleiga Akureyrar - Höldur ehf. er stærsta bílaleiga landsins með um 3.000 bíla í rekstri.  Starfsmannafjöldi fyrirtækisins er í dag um 160 og nálægt 200 á háannatíma í ferðaþjónustu. Fyrirtækið fangaði 40 ára starfsafmæli á árinu en rætur þess má rekja aftur til ársins 1966. Bílaleiga Akureyrar er þekkt fyrir góða þjónustu og má sjá það í 20 afgreiðslustöðum um land allt. Bílaleigan skartar stærsta og einum fjölbreyttasta bílaflota landsins og er hann endurnýjaður reglulega. Bílaleiga Akureyrar er fyrsta og eina bílaleigan á Íslandi til þess að hljóta vottun samkvæmt gæðastaðlinum ÍST ISO 9001 og umhverfisstjórnunarstaðlinum ÍST ISO 14001. Bílaleiga Akureyrar hlaut nýverið umhverfisverðlaun Ferðamálastofu. Forstjóri Hölds er Steingrímur Birgisson sem hefur unnið ötullega að hagsmunum norðlenskrar ferðaþjónustu ásamt öflugu starfsfólki sínu en við viðurkenningunni tók Þórdís Bjarnadóttir bókanastjóri.

Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli hlaut viðurkenningu fyrir ötul störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi. Guðmundur Karl tók við stöðu forstöðumanns Hlíðarfjalls árið 2000 og hefur unnið að krafti að því að byggja upp Hlíðarfjall sem vinsælasta skíðasvæði landsins, sem dregur að sér mikinn fjölda innlendra ferðamanna norður á hverjum vetri. Síðustu misseri hefur Guðmundur unnið að markaðssetningu á svæðinu fyrir erlenda ferðamenn í samstarfi við önnur skíðasvæði á Norðurlandi og hefur sú vinna þegar komið Norðurlandi á kortið erlendis og skapað sérstöðu fyrir svæðið. Guðmundur hefur verið í stjórn átaksins Komdu norður, gegnt formennsku í stjórn sambands skíðasvæða á Íslandi frá árinu 2002-2011, setið í stjórn ferðamálasamtaka norðurlands eystra síðan 2011 og verið framkvæmdastjóri Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands frá árunum 2001-2014. Guðmundur er forsprakki North Atlantic Ski Association skammstafað NASAA og inniheldur skosk og íslensk skíðasvæði. Guðmundur hefur menntun í rekstri skíðavæða frá Ironwood, Michigan í Bandaríkjunum og starfaði á erlendri grundu frá árinu 1991 í skíðageiranum við góðan orðstír. Guðmundur lauk nýverið BS prófi í viðskiptafræðum við Háskólann á Akureyri og var lokaverkefni hans um staðfærslu skíðasvæða. Það má með sanni segja að Guðmundur Karl Jónsson er vel að viðurkenningunni kominn og framlag hans við eflingu eins stærsta afþreyingarmöguleika sem Norðurland hefur upp á að bjóða óumdeilt.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan