Þjóðlega listahátíðin Vaka

Í dag hefst á Akureyri þjóðlega listahátíðin Vaka þar sem boðið verður upp á alls kyns alþýðulist af besta tagi: Tónlist, söng og kveðskap, dans og handíðir frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Englandi, Skotlandi, Wales, Ástralíu og Armeníu. Hátíðin stendur í fjóra daga þar sem verður spilað, sungið og dansað frá morgni fram á rauða nótt.

Viltu hlýða á Króka-Refs rímur, spila fiðlutónlist frá Skotlandi, reyna þig í riverdance, læra að syngja íslenskan tvísöng eða einfaldlega hlýða á frábært þjóðlistafólk víða að úr veröldinni?

Á Vöku er stefnt að því að bjóða upp á eitthvað fyrir alla. Dagskrána í heild sinni er hægt að skoða bæði á íslensku og ensku á heimasíðu hátíðarinnar www.vakafolk.is þar sem einnig má nálgast upplýsingar um miðaverð og kaupa miða.

Á tónleikum sem haldnir verða síðdegis og á kvöldin má sjá og heyra fleiri en 100 framúrskarandi þjóðtónlistarfólk og þjóðdansara.

Laugardaginn 13. júní verða Króka-Refs rímur kveðnar í fyrsta sinn opinberlega af nokkrum úrvalskvæðamönnum. Þetta er sérstök sviðsetning á rímnaflokknum sem ortur var af Hallgrími Péturssyni á 17. öld eftir sögunni af Króka-Ref sem reis úr öskustónni og sannaði sig bæði með kænsku, hugrekki og hagleik.

Námskeið verða haldin fyrir alla aldurshópa, bæði byrjendur og lengra komna. Lærðu að spila fiðlutónlist frá Hjaltlandi og Skotlandi af Wilma Young og Wendy Stewart. Reyndu þig í írskum dansi (Riverdansi) með O'Shea-Ryan Academy of Irish Dance eða íslenskum þjóðdönsum með félögum úr dansfélaginu Vefaranum. Lærðu að syngja íslensk tvísöngslög hjá Báru Grímsdóttur. Spilaðu sænska polka með Erik Ask-Upmark og Anna Rynefors í Dråm, eða finndu eitthvað allt annað.

Spilað og sungið. Í hádeginu alla dagana verður boðið upp á vettvang þar sem fólk getur komið saman til að spila og syngja, þar sem listamenn hátíðarinnar verða gestgjafar. Fjölmörg önnur tækifæri munu gefast til að koma saman og djamma, spila og syngja.

Lokahófið, sem við köllum Ceilidh (Keilí) fer fram í Sjallanum laugardagskvöldið 13. júní en það verður einstök skemmtun. Þar munu margir listamenn hátíðarinnar koma fram og hinir íslensku, írsku og dönsku danshópar munu sýna dansa og gefa gestum færi á að taka þátt.

Handíðasýningar. Á Vöku mun Þjóðháttafélagið Handraðinn setja upp tvær handíðasýningar.

Aðgöngumiðar. Allar upplýsingar um miðaverð, bæði á alla hátíðina og einstaka viðburði er að finna á heimasíðu hátíðarinnar www.vakafolk.is. Afsláttur er veittur fyrir nema, eldri borgara, öryrkja og atvinnuleitendur. Á síðunni er líka hægt að kaupa miða.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan