Skýrsla um öldrunarþjónustu á Akureyri

Ný skýrsla KPMG um öldrunarþjónustu Akureyrarbæjar var kynnt í bæjarstjórn 19. janúar sl. Þar kemur meðal annars fram að brýnt sé að ákvarðanir verði teknar um framtíðarfyrirkomulag á rekstri Öldrunarheimila Akureyrarbæjar og að fram fari uppgjör við ríkið vegna fyrri ára. Akureyrarbær hefur greitt hundruð milljóna króna með rekstri hjúkrunar- og dvalarheimila í bænum á síðustu árum þar sem daggjaldatekjur frá ríkinu hafa ekki dugað fyrir útgjöldum.

Lögum samkvæmt er fjármögnun þjónustunnar á ábyrgð ríkisins en samningur um rekstur öldrunarheimilanna hefur ekki verið í gildi frá árslokum 2008. Ríkið skilgreinir sjálft kröfur til þjónustunnar og ákvarðar daggjöldin einhliða en þau hafa langt í frá nægt til að standa undir rekstrinum síðustu árin.

Kostnaður Akureyrarbæjar á hvern íbúa 67 ára og eldri hefur vaxið um 148% frá árinu 2007 til ársins 2014, mælt á föstu verðlagi. Skýrist það helst af viðvarandi og vaxandi halla á rekstri Öldrunarheimila Akureyrar, einkum vegna aukins launakostnaðar og raunlækkunar á daggjaldatekjum. Þannig fóru um 93% af daggjöldum ársins 2014 í launakostnað öldrunarheimilanna og heildarkostnaður við rekstur þeirra voru rúmlega 15% umfram daggjöld ríkisins.

Mikilvægt er að ríki og sveitarfélög móti samræmda heildarstefnu í málefnum aldraðra og eyði óvissu um ábyrgð og fjármögnun þjónustunnar. Nauðsynlegt er að ríkið kostnaðargreini kröfulýsingu velferðarráðuneytisins fyrir öldrunarþjónustu og miði fjárveitingar sínar við raunkostnað.

Frétt Sjónvarpsins um málið 25. janúar 2016.

Skýrsla KPMG um öldrunarþjónustu Akureyrarbæjar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan