Sextíu nýir eldvarafulltrúar hjá Akureyrarbæ

Frá námskeiðinu í gær.
Frá námskeiðinu í gær.

Um 60 starfsmenn Akureyrarbæjar sátu námskeið Eldvarnabandalagsins og Slökkviliðs Akureyrar fyrir eldvarnafulltrúa í gær. Námskeiðið er liður í innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits hjá Akureyrarbæ. Verkefnastjóri Eldvarnabandalagsins og eldvarnaeftirlitsmaður Slökkviliðs Akureyrar fjölluðu um eldvarnir á vinnustað og hlutverk eldvarnafulltrúa. Alls munu um 70 eldvarnafulltrúar Akureyrarbæjar annast reglulegt eldvarnaeftirlit samkvæmt gátlistum Eldvarnabandalagsins næsta árið samkvæmt samstarfssamningi sem undirritaður var í vor.

Jafnframt vinnur Slökkvilið Akureyrar að því um þessar mundir að fræða allt starfsfólk Akureyrarbæjar, um tvö þúsund manns, um eldvarnir á vinnustað og heimilinu. Það er einnig liður í samstarfi Akureyrarbæjar og Eldvarnabandalagsins um auknar eldvarnir.

Gert er ráð fyrir að hinir nýju eldvarnafulltrúar Akureyrarbæjar hefji árlegt og mánaðarlegt eldvarnaeftirlit nú í október samkvæmt gátlistum sem aðgengilegir eru hér á vefnum. Í mánaðarlegu eldvarnaeftirliti er meðal annars hugað að flóttaleiðum, útljósum, eldvarnabúnaði og hugsanlegri ruslsöfnun innan húss og utan.

Sveitarfélögin Húnaþing vestra og Fjarðabyggð standa um þessar mundir að innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits í samvinnu við Eldvarnabandalagið með sama hætti og Akureyrarbær.

Frétt og mynd af heimasíðu Eldvarnabandalagsins.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan