Samningur um Akureyrarvöku 2015

Jón Gunnar Þórðarson og Skúli Gautason framkvæmdastjóri Akureyrarstofu undirrita samninginn.
Jón Gunnar Þórðarson og Skúli Gautason framkvæmdastjóri Akureyrarstofu undirrita samninginn.

Í dag var undirritaður samningur við Jón Gunnar Þórðarson leikstjóra um verkefnastjórn á Akureyrarvöku 2015 í samvinnu við Akureyrarstofu og er þetta í þriðja skipti sem Jón Gunnar er fenginn til starfans. Hátíðin fer fram 28.-30. ágúst en afmælisdagur Akureyrarbæjar er 29.ágúst.

Akureyrarvaka hefur tvö síðustu ár unnið með ákveðið þema. Árið 2013 var þemað fjölmenning, í fyrra var það al-menning fyrir almenning og í ár mun dagskráin litast af því að nú er þess minnst að 100 ár eru síðan konur á Íslandi fengu kosningarétt. Fjölmargar konur hafa gert Akureyrarbæ að þeim menningarbæ sem hann er í dag og verður þeirra sérstaklega minnst af þakklæti og virðingu eins og vera ber.

Vinna við dagskrá Akureyrarvöku er þegar hafin og enn sem fyrr er áhersla lögð á fjölbreytta, metnaðarfulla og litríka dagskrá þar sem bæjarbúar og gestir fá notið saman einstakrar upplifunar. Allir þeir sem hafa skemmtilegar hugmyndir í kollinum eru hvattir til að senda línu í netfangið akureyravaka@akureyri.is.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan