Rökkurró og Draugaslóð

Hymnodía í Lystigarðinum í kvöld.
Hymnodía í Lystigarðinum í kvöld.

Akureyrarvaka var sett með Rökkurró í Lystigarðinum í kvöld í mildu veðri en dálitlum rigningarúða. Formaður bæjarráðs, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, flutti ávarp og formaður umhverfisnefndar, Dagbjört Pálsdóttir, veitti veiðurkenningar fyrir fegurstu garða bæjarins og fallegasta matjurtargarðinn. Tíu hornleikarar frá Þýskalandi og Íslandi fluttu tvö stutt verk, dansfélagið Vefarinn sýndi þjóðlega dansa við góðar undirtektir áhorfenda og síðan barst leikurinn vítt og breitt um Lystigarðinn.

Meðal skemmtiatriða voru hljómsveitin Herðubreið, Karlakór Akureyrar-Geysir sem flutti lög við ljóð Davíðs Stefánssonar og kammerkórinn Hymnódía sem flutti lög við ljóð Kristjáns frá Djúpalæk.

Að lokinni dagskrá í Lystigarðinum hófst hin svokallaða Draugaslóð í Innbænum þar sem alls kyns afturgöngur og óværur skutu fólki skelk í bringu á myrkvuðum götunum. Akureyrarvaka heldur síðan áfram á laugardag frá klukkan 11 árdegis og fram undir miðnætti.

Garðaviðurkenningar að þessu sinni hlutu Kjartan Snorrason og Sveindís Almarsdóttir fyrir garðinn við Hólatún 7, Birgir Snorrason og Kristín Petra Guðmundsdóttir fyrir garðinn við Klettagerði 1, Marinó Marinósson og Kalla Ingvadóttir fyrir garðinn við Lönguhlíð 14 og Ríkissjóður Íslands fyrir lóðina við VMA. Matjurtagarður ársins var garður Guðmundar Þ. Tuliníusar sem hefur ræktað garðinn sinn af verkfræðilegri natni og líklega sett Íslandsmet í stærð á gulrótum þar sem sú stærsta vóg 464 grömm.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan