Ríkisvaldið verði kallað að málefnum Grímseyjar

Frá fundinum í Grímsey. Mynd: Ragnar Hólm.
Frá fundinum í Grímsey. Mynd: Ragnar Hólm.

Hverfisráð Grímseyjar boðaði til íbúafundar í félagsheimilinu Múla í Grímsey í gær og hélt um leið aðalfund sinn. Fulltrúar bæjarstjórnar Akureyrar, Byggðastofnunar og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar voru sérstaklega boðaðir á fundinn þar sem skyldi ræða stöðu og möguleika í sjávarútvegi í eyjunni, framtíðarhorfur og þróun byggðar. Um 40 manns sátu fundinn og var mikill samhugur meðal fólks um að finna leiðir til að tryggja áframhaldandi blómlega byggð í Grímsey. Niðurstaða fundarins var að eina leiðin til að mál þokuðust eitthvað áfram væri að kalla ríkisvaldið, þingmenn og ráðherra að borðinu og knýja fram lausnir á þeim vanda sem við blasir með samhentu átaki allra þeirra sem að málinu koma.

Við upphaf fundar sagði Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri að hart hefði verið lagt að Byggðastofnun að Grímsey hlyti stuðning með verkefninu „Brotthættar byggðir“ en að skýr svör þar að lútandi hefðu þó enn ekki fengist. Því miður hefði fulltrúi Byggðastofnunar tilkynnt forföll skömmu fyrir fundinn og gæti því ekki skýrt frá stöðu mála . Búið væri að upplýsa alla þingmenn kjördæmisins um hvernig komið væri fyrir sjávarútvegi í Grímsey. „Atvinnulífið hér stendur á einni meginstoð og þegar hriktir í henni þá vofir augljósalega yfir okkur öllum mikil hætta,“ sagði Eiríkur Björn.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, lýsti þróun sjávarútvegs í Grímsey síðasta rúma áratuginn þar sem hvert áfallið hefur rekið annað með kvótaskerðingum og stökkbreytingum lána. Þorvaldur Lúðvík sagði að reynt hefði verið til þrautar að finna lausn mála með fundum fulltrúa Byggðastofnunar, Akureyrarbæjar og Íslandsbanka  og því yrði haldið áfram. Einnig vildi Þorvaldur boða til fundar með Grímseyingum þar sem rýnt yrði í möguleika og nýjar hugmyndir um fjölbreyttara atvinnulífi í eyjunni til að mynda á sviði ferðaþjónustu.

Fremur þungt hljóð var í útgerðarmönnum í eyjunni sem lýstu hálfgerðri stöðnun í sjávarútvegi í Grímsey, allt væri í járnum, enginn þyrði að ráðast í viðhald eða framkvæmdir, og spurning væri hversu lengi þessu gæti undið fram með sama hætti. „Ég held að við ættum að stefna að því að fá þingmenn til að heimsækja okkur svo þeir átti sig betur á stöðunni og alvarleika málsins,“ sagði Guðrún Gísladóttir útgerðarmaður í Grímsey.

Í nýtt hverfisráð Grímseyjar voru kjörin Karen Nótt Halldórsdóttir, Jóhannes Henningsson og Sigfús Jóhannesson.


Frá fundinum í Grímsey. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri lengst til vinstri. Mynd: Ragnar Hólm.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan