Ráðið í fjögur ný sviðsstjórastörf hjá Akureyrarbæ

Ráðhús Akureyrarbæjar.
Ráðhús Akureyrarbæjar.

Í framhaldi af fyrirhuguðum breytingum á stjórnsýslu Akureyrarbæjar voru í október sl. auglýst laus til umsóknar fjögur ný sviðsstjórastörf hjá sveitarfélaginu. Tilgangur breytinganna er að laga stjórnsýslu bæjarins að breyttum tímum og ná fram aukinni skilvirkni til hagsbóta fyrir bæjarbúa. Stærsta breytingin felur í sér sameiningu nefnda og fækkun stjórnunareininga með því að sameina deildir með skylda starfsemi. Sú breyting leiðir til þess að lögð verða niður átta störf framkvæmdastjóra deilda og í staðinn tekin upp fjögur störf sviðsstjóra. Nýtt skipurit Akureyrarbæjar tekur gildi 1. janúar 2017.

Alls sóttu 45 manns um störfin fjögur og bæjarstjóri kynnti niðurstöður um ráðningar sviðsstjóra fyrir bæjarráði í gær, 24. nóvember. Þar lagði hann til að gengið verði til samninga við Dan J. Brynjarsson um starf sviðsstjóra fjársýslusviðs, Kristin J. Reimarsson um starf sviðsstjóra samfélagssviðs, Höllu Margréti Tryggvadóttur um starf sviðsstjóra stjórnsýslusviðs og Guðríði Friðriksdóttur um starf sviðsstjóra umhverfis- og mannvirkjasviðs.

Dan Jens Brynjarsson er með Cand. Oecon gráðu í viðskiptafræði með áherslu á fjármál auk MBA gráðu með áherslu á fjármál, stjórnun og stefnumótun. Hann hefur starfað við fjármálastýringu hjá Akureyrarbæ síðan 1988 sem hagsýslustjóri, sviðsstjóri fjármálasviðs, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og sem fjármálastjóri. Kristinn J. Reimarsson er íþróttakennari að mennt og hefur lokið framhaldsnámi í íþróttafræðum ásamt námi í rekstrar- og viðskiptafræði. Kristinn hefur starfað hjá fjórum sveitarfélögum að íþrótta-, forvarna-, frístunda-, menningar-, viðburða- og skólamálum. Halla Margrét Tryggvadóttir er viðskiptafræðingur að mennt. Hún hefur verið starfsmannastjóri Akureyrarbæjar frá árinu 2003. Guðríður Friðriksdóttir  er með BS gráðu í byggingaverkfræði, meistaragráðu í sömu grein ásamt MBA gráðu. Guðríður hefur stýrt Fasteignum Akureyrarbæjar frá árinu 2002.

Akureyrarbær naut aðstoðar Capacent í ráðningarferlinu. Af hálfu Akureyrarbæjar tóku bæjarfulltrúarnir Matthías Rögnvaldsson og Sóley Björk Stefánsdóttir þátt í ráðningarferlinu með Eiríki Birni Björgvinssyni bæjarstjóra.

Sambærilegar menntunar- og hæfniskröfur voru gerðar vegna allra starfanna og voru umsóknir metnar út frá þeim. Settir voru upp matsrammar þar sem metið var hverjir umsækjenda uppfylltu best framsettar menntunar- og hæfniskröfur. Í upphafsferlinu var gerð tilraun með nafnlaust mat á umsóknum, þ.e. bæjarstjóri og bæjarfulltrúarnir tveir sáu hvorki nöfn né aðrar kyngreinanlegar upplýsingar um umsækjendur. Þetta var gert til að tryggja eins vel og mögulegt er hlutleysi við mat á umsóknum.

Að loknu mati á umsóknum fóru fram viðtöl við þá umsækjendur sem best þóttu uppfylla hæfniskröfur. Sömu spurningar voru lagðar fyrir alla og reynt að fá fram með skýrum hætti hvernig umsækjendur mátu reynslu, þekkingu og hæfni sína í störfin. Ráðgjafi frá Capacent leiddi viðtölin en Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri og Sóley Björk Stefánsdóttir bæjarfulltrúi tóku einnig þátt í viðtölunum. Að loknu mati á viðtölum voru nokkrir umsækjendur boðaðir til annars viðtals þar sem umsækjendur kynntu framtíðarsýn sína fyrir þau svið sem þeir sóttust eftir að stýra. Einnig var spurt nánar út í ákveðna þætti sem lúta að hæfni, reynslu og sýn umsækjenda. Ráðgjafi Capacent, Eiríkur, Sóley og Matthías tóku þátt í þessum viðtölum.

Að lokum var heildstætt mat dregið saman fyrir allt ferlið auk þess sem mat umsagnaraðila var vegið inn í matsramma. Þeir umsækjendur sem fengu hæst mat, eru þeir sem bæjarstjóri hefur ákveðið að ganga til samninga við um störf sviðsstjóra.

Matsrammar vegna starfa sviðsstjóra.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan