Póstþjónusta framtíðarinnar

Mynd: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir.
Mynd: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir.

Fundur um póstþjónustu framtíðarinnar verður haldinn fimmtudaginn 23. október kl. 17.00-18.30 í Menningarhúsinu Hofi. Þetta er opinn fundur fyrir alla sem láta sig þessi mál varða. Miklar breytingar hafa orðið síðastliðin ár á samskiptamynstri einstaklinga jafnt sem fyrirtækja.

Almenningur sækist ekki eftir sömu þjónustu og hann gerði áður fyrr. Rafræn samskipti hafa aukist verulega og hafa þau haft umtalsverð áhrif á póstþjónustuna. Mikill samdráttur hefur verið í bréfasendingum en á móti hefur orðið aukning í öðrum þáttum, eins og t.d. pakkasendingum og annarri dreifingarþjónustu. Þessar breytingar kalla á nýjar áherslur í póstþjónustunni.

Þrátt fyrir minnkandi bréfamagn gera ýmsir kröfu á Póstinn um að halda úti óbreyttri þjónustu. Pósturinn vill því eiga samtal við notendur póstþjónustunnar, bæði einstaklinga og fulltrúa fyrirtækja, um raunverulegar þarfir þeirra á sviði póstþjónustu og hvernig tryggja megi fjármögnun hennar nú og í framtíðinni.

Forsvarsmenn Íslandspósts halda opna fundi á Egilsstöðum, Húsavík og Akureyri í næstu viku. Þetta er liður í fundarröð um stöðu og framtíð póstmála á Íslandi. Skoðun landsmanna á póstmálum er mjög mikilvæg fyrir fyrirtækið. Vonast er til að sem flestir mæti og taki þátt í umræðum um hvernig póstþjónusta framtíðarinnar eigi að vera.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan