Nýtt leiðakerfi kynnt

Frá fundinum í gær. Rúna Ásmundsdóttir í pontu.
Frá fundinum í gær. Rúna Ásmundsdóttir í pontu.

Um 50 manns mættu á kynningarfund sem haldinn var í Hofi í gærkvöldi um nýtt leiðakerfi Strætisvagna Akureyrar sem tekið verður í notkun um næstu mánaðamót. Jónas Vigfússon forstöðumaður Umhverfismiðstöðvar fjallaði almennt um þær breytingar sem fyrir dyrum standa og Rúna Ásmundsdóttir umferðarverkfræðingur hjá Eflu sagði frá þeim hugmyndum sem liggja til grundvallar og útskýrði fyrirhugaðar breytingar á leiðakerfinu.

Á fundinum komu fram ýmsar góðar ábendingar sem varða nýja kerfið. Til að mynda var nefnt að ungt fólk gæti trauðla notað strætó til að komast heim úr miðbæ seint um kvöld eða snemma nætur. Einnig var ítrekað mikilvægi þess að þjónustan væri sem best fyrir eldri borgara. Ljóst er að með þessum breytingum á leiðakerfinu er reynt eins og kostur er að koma til móts við þarfir allra með nokkrum breytingum en þó sömu úrræðum og áður. Nokkrir fundarmanna létu í ljós mikla ánægju með bætta þjónustu við skólafólk á öllum aldri.

Nýjar tímatöflur eru tilbúnar og bílstjórar hjá SVA munu rýna þær á mánudag. Stefnt er að því að birta þær á þriðjudaginn og þá gefst bæjarbúum kostur á að koma ábendingum eða athugasemdum á framfæri ef einhverjar verða.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan