Arnar Ómarsson.
Arnar Ómarsson.

Laugardaginn 28. febrúar kl. 15 verður opnuð í vestursal Listasafnsins á Akureyri sýning Arnars Ómarssonar, MSSS.

MSSS (Mega Space Super Station) er upplifunarinnsetning þar sem listamaðurinn leikur sér á mörkum skáldskapar og vísinda. Á sýningunni fjallar Arnar um samskipti tölvunnar við menn og horfir sérstaklega til mennskrar hliðar tölvunnar. Sú iðja kveikti áhuga hans á framtíðarspám og tengslunum milli vísindaskáldskapar og geimvísinda. Þar liggur mikil og heillandi óvissa um framtíðina. Hvernig hefur vísindaskáldskapur breytt viðhorfi okkar til vísinda? Eru vísindaframfarir að einhverju leyti byggðar á vísindaskáldskap? Þetta viðfangsefni er stútfullt af myndlíkingum, fallegu myndmáli og byggir á ríkri spádómsmenningu sem teygir sig árhundruð aftur í tímann.

Arnar Ómarsson hefur starfað sem listamaður í Danmörku og á Íslandi frá því hann lauk námi í London 2011. Hann notar eðli mannsins sem viðfangsefni og vinnur með samband hans við umhverfið í ýmsum myndum. Hann er annar skipuleggjenda Reita á Siglufirði og rekur gestavinnustofu í Danmörku.

MSSS lýkur 8. mars og er síðasta sýningin í röð 8 vikulangra sýninga í vestursal Listasafnsins sem hófst 10. janúar síðastliðinn. Habby Osk, Brenton Alexander Smith, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Kristján Pétur Sigurðsson, Thora Karlsdotti, Joris Rademaker og Lárus H. List hafa þegar sýnt.

Lokunarteiti sýningarinnar verður laugardaginn 7. mars kl. 15-17.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan