Markvisst unnið að launajafnrétti hjá Akureyrarbæ

Mynd: María Helena Tryggvadóttir.
Mynd: María Helena Tryggvadóttir.

Í nýrri kjarakönnun BHM, sem talsvert hefur verið fjallað um í fjölmiðlum, er komist að þeirri niðurstöðu leiðréttur launamunur kynjanna hafi aukist úr 2,9% árið 2014 í 13,8% árið 2015 hjá öðrum sveitarfélögum en Reykjavík. Þarna er höfuðborgin tekin út fyrir sviga en öllum öðrum sveitarfélögum landsins steypt saman í eitt mót.

Hjá Akureyrarbæ hefur um árabil verið unnið markvisst að því að jafna laun kynjanna. Launakannanir hafa verið gerðar reglulega og sú nýjasta, sem er frá árinu 2013, leiddi í ljós að munur á heildarlaunum karla og kvenna var þá 3,9% körlum í hag en 1,5% þeim í hag þegar aðeins var litið til dagvinnulauna. Í kjölfarið var settur á laggirnar vinnuhópur sem lagði fram ákveðnar tillögur til úrbóta. Eftir þeim hefur verið unnið og ný könnun er fyrirhuguð síðar á þessu ári.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri sem starfaði með vinnuhópnum segir að það myndi koma sér verulega á óvart ef svo mikið bakslag hefði orðið eins og könnun BHM virðist sýna. "Við höfum óskað eftir nánari upplýsingum um könnun BHM og þá aðferðafræði sem þar er beitt. Það er afar slæmt að öllum sveitarfélögum öðrum en Reykjavíkurborg sé steypt saman og er til þess fallið að vekja tortryggni og óróa meðal starfsfólks og kjörinna fulltrúa sem hafa metnað til að vinna vel á þessu sviði. Hér höfum við vandað okkur sérstaklega við að fylgjast vel með launaþróun og útrýma kynbundnum launamun."

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan