Mannlífið í miðbænum á Akureyri

Vinnuhópur um takmörkun umferðar vélknúinna ökutækja um miðbæinn á Akureyri hefur lagt fram verklagsreglur sem voru samþykktar í bæjarstjórn 7. júní sl. Markmið reglanna er að auðga mannlífið í miðbænum, efla bæjarbraginn, auka öryggi gangandi vegfarenda og hvetja um leið bæjarbúa og gesti til að ganga og njóta útiveru.

Einnig opnast með þessu auknir möguleikar á að nýta miðbæjarsvæðið fyrir alls kyns uppákomur sem trekkja að fólk og auka viðskipti í bænum. Sá hluti Hafnarstrætis sem í daglegu tali er kallaður göngugata, verður þar með raunveruleg göngugata fáeina daga í mánuði en verklagsreglurnar ná einnig til lokunar Listagilsins þegar stórar sýningar eru opnaðar þar.

Byrjað verður að vinna eftir þessum reglum föstudaginn 1. júlí og er gert ráð fyrir að göngugatan verði einungis opin fyrir fótgangandi frá kl. 11-17 alla daga í júlí og fimmtudaga, föstudaga og laugardaga í ágúst.

Listagilinu má einnig loka að hámarki fjórum sinnum í sumar frá kl. 14-17 á laugardögum þegar sýningar eru opnaðar eða aðrir listviðburðir eiga sér stað. Í haust verður reynslan af þessu fyrirkomulagi metin og verklagsreglurnar endurskoðaðar.

Vörumóttaka er ætluð utan þessa tíma. Aðkoma fatlaðra að göngugötunni er norðan megin (frá Brekkugötu).

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan