Mánaðarskýrslur Akureyrarbæjar

Hafin er útgáfa á Mánaðarskýrslum Akureyrarbæjar þar sem birtar eru á myndrænan hátt ýmsar lykiltölur sem varða rekstur sveitarfélagsins. Fyrsta tölublað kom út í morgun og er þar meðal annars fjallað um íbúafjölda, auglýst störf, atvinnuleysi og aðsóknartölur. Einnig er fjallað sérstaklega um fjölda opinberra starfa hjá ríkisstofnunum á Akureyri og borin saman árin 2007 og 2013. Umræða um flutning ríkisstofnana á milli sveitarfélaga hefur verið nokkuð hávær upp á síðkastið og er forvitnilegt að skoða tölurnar í því samhengi.

Tilgangurinn með útgáfu Mánaðarskýrslna Akureyrarbæjar er að veita kjörnum fulltrúum, starfsmönnum og íbúum innsýn í rekstur sveitarfélagsins. Tölurnar verða uppfærðar mánaðarlega og í hverju tölublaði kafað dýpra í einn valinn málaflokk. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, fagnar útgáfunni og segir hana vera til marks um opna stjórnsýslu: „Það hafa ekki allir tíma til að liggja yfir þykkum skýrslum um rekstur bæjarins eða átta sig á því landslagi sem við búum við af hálfu ríkisvaldsins, en á þessum örfáu síðum getur fólk séð í sviphendingu þróun helstu málaflokka á mjög myndrænan hátt. Það að setja þetta fram með þessum hætti hjálpar okkur að auka íbúalýðræði á Akureyri og er mikilvægur þáttur í opinni stjórnsýslu. Hvort tveggja hefur núverandi meirihluti sett á oddinn.“

Verkefnastjóri atvinnumála hjá Akureyrarbæ, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, ritstýrir Mánaðarskýrslum Akureyrarbæjar. Netfang hennar er albertina@akureyri.is.

Fyrsta mánaðarskýrslan, desember 2014.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan