Litla ljóðahátíðin

Frá ljóðagöngu í Kjarnaskógi á hátíðinni í fyrra.
Frá ljóðagöngu í Kjarnaskógi á hátíðinni í fyrra.

Litla ljóðahátíðin í Norðausturríki hefst í dag, fimmtudaginn 16. október, og stendur fram á sunnudag. Á annan tug skálda koma fram á hátíðinni og haldnir verða átta viðburðir í Eyjafirði og á Fljótsdalshéraði.

Þetta er í annað sinn sem hátíðin er haldin með þessu sniði. Síðast voru það Einar Már Guðmundsson, Sigurbjörg Þrastardóttir og Sjón sem voru fremst meðal jafninga á dagskránni, en nú munu Bjarki Karlsson, Kristín Eiríksdóttir og Kristian Guttesen koma fram, ásamt fleiri skáldum að austan og norðan.

Hátíðin verður sett formlega á Icelandair Hótel Héraði á Egilsstöðum á föstudag klukkan 17 en á fimmtudag fara fram tveir viðburðir á vegum hátíðarinnar. Annars vegar verður útgáfukynning í Eymundsson Akureyri á nýútkominni ljóðabók Hrafnkels Lárussonar "Ég leitaði einskis... og fann" og hins vegar verður klukkan 20 ljóðaganga í Hallormsstaðaskógi í samstarfi við Skógrækt ríkisins. Þar koma fram þau Hulda Sigurdís Þráinsdóttir, Ingunn Snædal, Stefán Bogi Sveinsson og Sveinn Snorri Sveinsson.

Á föstudag verður auk setningarinnar boðið upp á ljóðakvöld klukkan 20.30 í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Þar munu Bjarki Karlsson, Kristín Eiríksdóttir, Kristian Guttesen, Gréta Kristín Ómarsdóttir og Urður Snædal lesa úr verkum sínum.

Á laugardag eru tveir viðburðir á dagskrá. Annars vegar munu skáld hátíðarinnar sameinast í ljóðagjörningi í Möðrudalskirkju klukkan 11.30. Yfirskriftin gjörningsins er "Umbrot í auðninni" og er hann helgaður minningu feðganna frá Möðrudal, Jóns Stefánssonar og Stefáns V. Jónssonar sem kallaði sig Stórval. Hins vegar verður klukkan 17 boðið upp á ljóðadagskrá í Populus Tremula í Listagilinu á Akureyri. Þar verða það Bjarki Karlsson, Kristín Eiríksdóttir, Kristian Guttesen, Gréta Kristín Ómarsdóttir og Jón Laxdal sem lesa úr verkum sínum.

Hátíðin endar á sunnudag og er annars vegar boðið upp á Bókmenntabrunch á Icelandair Hótel Akureyri klukkan 11.30 þar sem Bjarki Karlsson, Kristín Eiríksdóttir, Kristian Guttesen og Stefán Bogi Sveinsson lesa upp úr verkum sínum. Hins vegar fer fram ljóðaganga og verður hún að þessu sinni gengin í Vaðlaskógi gegnt Akureyri. Þar mun hluti af skáldum hátíðarinnar láta ljós sitt skína fyrir göngufólk en gangan hefst klukkan 14.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan