Listasumar að hefjast

Listagilið miðvikudaginn 10. júní.
Listagilið miðvikudaginn 10. júní.

Nú er unnið að því að skreyta Listagilið á Akureyri en Listasumar hefst formlega föstudaginn 12. júní og mun standa til 6. september. Í tæpa tvo áratugi var Listasumar umgjörð fyrir listviðburði á Akureyri sem og vettvangur fyrir listamenn til að koma sér á framfæri. Það verður nú endurvakið með svipuðum áherslum.

Við opnun Listasumars föstudaginn 12. júní kl. 17 stígur Hlynur Hallsson safnstjóri Listasafnsins á Akureyri á stokk og segir nokkur vel valinn orð, umvafinn handverki kvenna, sem mun prýða Listagilið. Í framhaldinu taka við tvennir tónleikar, annars vegar býður Þjóðlistahátiðin Vaka upp á síðdegistóna í Deiglunni og hins vegar er gestum og gangandi boðið að taka þátt í Tilraunakenndum sólarhring undir merkjum tón- og myndlistarhátíðarinnar Yms, frá kl. 18 til 18.

Yfir 70 atriði eru komin á dagskrá Listasumars og er þá dagskráin alls ekki tæmandi því mögulegt er að bæta við viðburðum allt til loka tímabilsins.

Listasumri lýkur með A! Gjörningahátíð sem er nýjasta viðbótin í flóru listahátíða landsins. Hátíðin verður haldin í fyrsta sinn dagana 3. - 6. september 2015 og er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, Lókal – alþjóðlegrar leiklistarhátíðar í Reykjavík, Leikfélags Akureyrar, Reykjavík Dance Festival og Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar. Á hátíðinni verður lögð áhersla á sviðslistir og gjörninga þar sem myndræn framsetning og nýstárleg notkun á rými og miðlum er í fyrirrúmi. A! markar lok Listasumars í Listagilinu sem fyllist af óvæntu lífi þessa daga en gert er ráð fyrir að dagskrá A! Gjörningahátíðar fari fram í Listasafninu, Ketilhúsi og víðar á Akureyri. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan