LA, Hof og Sinfóníuhljómsveitin undir einn hatt

Stjórn Menningarfélags Akureyrar undirritar skipulagsskrá félagsins, (f.v.) Arnheiður Jóhannsdóttir,…
Stjórn Menningarfélags Akureyrar undirritar skipulagsskrá félagsins, (f.v.) Arnheiður Jóhannsdóttir, Sigurður Kristinssson, Magna Guðmundsdóttir og Rúnar Þór Sigursteinsson.

Sjálfseignarstofnunin Menningarfélag Akureyrar var formlega sett á fót þann 17. júlí síðastliðinn. Hún mun reka undir einum hatti verkefni og vörumerki Leikfélags Akureyrar, Menningarfélagsins Hofs og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands en þessi félög eru jafnframt stofnaðilar nýja félagsins. Ofangreindir aðilar hafa undirbúið þessa stofnun undanfarin misseri með þátttöku og aðstoð Akureyrarbæjar.

Í stjórn skipa félögin þrjú hvert sinn fulltrúa og einn til vara. Jafnframt skipar Akureyrarbær einn fulltrúa sem verður formaður stjórnar. Aðalfulltrúarnir eru: Sigurður Kristinsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, formaður, Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, Magna Guðmundsdóttir, tónlistarmaður og tónlistarkennari og Rúnar Þór Sigursteinsson. Litið er á þrjú fyrstu starfsárin sem tilraunatíma þar sem félögin framselja verkefni sín og skyldur til nýja félagsins samkvæmt samningum við Akureyrarbæ. Að tilraunatímanum loknum verður árangur metinn og skiplag endurskoðað ef ástæða mun þykja til.

Helstu markmið nýja félagins eru að: 

- Efla atvinnustarfsemi í leiklist og sinfónískri tónlist á Akureyri

- Bjóða fyrirmyndarvettvang fyrir tónlistar- og sviðslistaviðburði, fundi og ráðstefnur

- Auka fjölbreytileika í menningar- og listalífi Norðurlands

- Tryggja samstarf um og samræmingu á milli stærri viðburða sem boðið er upp á

- Stuðla að öruggum rekstri og góðri meðferð og nýtingu opinberra fjármuna 

Nýja stjórnin hefur þegar tekið til starfa og félagið mun í haust kynna sameiginlegt vetrarstarf með fjölbreyttu menningarframboði. Tíminn fram að áramótum verður nýttur til að ganga frá ýmsum atriðum í samræmingu og samþættingu verkefnanna. Í haust verða auglýst ný störf lykilstjórnenda hjá nýja félaginu með það markmið að skipulag þess verði að fullu virkt frá og með næstu áramótum.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan