Landsbankinn úthlutar styrkjum vegna Akureyrarvöku

Fulltrúar þeirra verkefna sem hlutu styrk frá Landsbankanum vegna Akureyrarvöku ásamt fulltrúum Land…
Fulltrúar þeirra verkefna sem hlutu styrk frá Landsbankanum vegna Akureyrarvöku ásamt fulltrúum Landsbankans.

Landsbankinn hefur úthlutað styrkjum til átta verkefna og viðburða á Akureyrarvöku sem fram fer um næstu helgi. Samtals voru veittar 400 þúsund krónur til verkefnanna og hlaut hvert um sig 50.000 kr. styrk. Styrkveitingin er hluti af samstarfi Akureyrarstofu og Landsbankans sem hefur verið bakhjarl Akureyrarvöku um árabil.

Þema hátíðarinnar í ár er „dóttir-mamma-amma" og er það tilvísun til þeirra kvenna sem hafa lagt hönd á plóg til menningarlífsins á Akureyri, auk þess sem þetta er tilvísun í 100 ára kosningaafmæli kvenna. Við val á verkefnunum var horft til þess hvernig þau tengdust þemanu á sem fjölbreyttastan hátt.

Fjárstuðningur Landsbankans vegna Akureyrarvöku rennur beint til listamanna og hópa sem koma fram á hátíðinni. Þetta er í annað sinn sem Landsbankinn og Akureyrarstofa standa að styrkveitingunni en í úthlutunarnefnd sátu fulltrúar frá Akureyrarstofu og Landsbankanum.

Styrkina hlutu:

  • Lögin sem amma hlustaði á – Systurnar Una og Eik Haraldsdætur flytja sígild og góð dægurlög.
  • Götuleikhús Hins hússins – Gjörningar leikhópa Götuleikhússins.
  • Rósa Margrét Húnadóttir – Draumur hins djarfa manns og sjómannskonurnar sem heima sátu. Fyrirlestur um texta um konur í sjómannalögum.
  • Daníel Starrason og Magnús Andersen – Ljósmyndasýningin „Móðir“ um daglegt líf mæðra á Akureyri og í London.
  • Gerður Ósk Hjaltadóttir – Gjörningadanshópur – unglingar segja sögu sína í gegnum dansgjörning.
  • Nanna Arnfríðardóttir Christensen – Verkefnið „Post a Letter“ þar sem fólk hittist og skrifar bréf, póstkort, ástarbréf og afmæliskort.
  • Dagbjört Brynja Harðardóttir – Ljósmyndasýningin „Í heimsókn hjá Helgu“ um hina 94 ára gömlu Helgu Jónsdóttur sem býr í Hrísey.
  • Sellótónleikar Corpo di Strumenti með Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttir og Mathurin – Frægar barokksónötur, ásamt íslenskum og erlendum sönglögum.
Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan