Kvöldtónleikar Hymnodiu í síldarverksmiðunni á Hjalteyri

Fimmtudagskvöldið 26. nóvember mun kammerkórinn Hymnodia halda óvenjulegum tónleika kl. 20.30 í gömlu síldarverksmiðjunni á Hjalteyri við Eyjafjörð. Þar verður leikið á átta sekúndna eftirhljóm verksmiðjunnar sem minnir á hljóminn í stærstu dómkirkjum veraldar. Tónleikarnir eru þó ekki kirkjutónleikar og heldur ekki jólatónleikar. Hér leiða saman hesta sína kammerkórinn Hymnodia, Sigurður Flosason saxófónleikari, Harald Skullerud, slagverksleikari frá Noregi, og hin frábæra samíska söngkona Ulla Pirttijärvi sem að sjálfsögðu syngur joik að hætti Sama. Eyþór Ingi Jónsson, stjórnandi Hymnodiu, leikur líka á harmóníum og fleiri hljóðfæri.

Flutt verður tónlist sem tengist kvöldi og nóttu. Spuni verður áberandi og má búast við tilkomumiklum og frumlegum  hljóðheimi þar sem blandast saman hefðbundinn kórsöngur, þjóðlagatónlist, djassaður spuni og framsækin gjörningatónlist. Miðaverð er 2000 krónur og er hlýr fatnaður nauðsynlegur.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan