Jólasýning Minjasafnsins

Kátir krakkar á Minjasafninu.
Kátir krakkar á Minjasafninu.

Ætti að byrja að gefa í skóinn í október? Getur verið að jólasveinarnir séu fleiri en 13? Það vita ekki allir að jólasveinarnir eru mun fleiri. Minjasafnið á Akureyri stendur fyrir árlegri jólasýningu þar sem fjallað er um jólin fyrr á tímum og íslensku jólasveinana. Á sýningunni er hægt að kynnast bæði þekktum og óþekktum jólasveinum (líka óþekkum) og kynnast jólaundirbúningi fyrr á tímum.

Afkomendur Grýlu og Leppalúða sem snigluðust um sveitir hér áður fyrr á meðan fólk stóð í ströngu við undirbúning jólanna eru margir framandi í augum nútímafólks. Í dag hafa Lampaskuggi, Svellabrjótur og Flotsokka, ásamt fleirum, dregið sig í hlé. Við erum kannski bara heppin að Flórsleikir og Lungnaslettir séu hættir að koma til byggða, hver veit hvað kæmi í skóna frá þeim? Minjasafnið á Akureyri hefur haft upp á 89 nöfnum sem tengd eru við jólasveina – auk þess eru þekkt 77 nöfn á öðrum börnum Grýlu. Um þessa fjölskyldu og uppátæki sveinanna er fjallað á jólasýningu Minjasafnsins.

Á sýningunni er hægt að kynnast jólum og jólasveinum fyrr og nú með því að prófa og upplifa. Gestir geta spreytt sig á að kemba ull, lofta pönnu Stúfs og stinga sér í skyrtunnu Skyrgáms. Á rannsóknarstofu jólasveinanna er hægt að kafa dýpra og rannsaka þessa fjölskyldu með því að nota öll skynfæri. Þá stendur heilt fjall í sýningunni sem hægt er að gæjast inn í. Þar eru heimkynni jólasveinanna, Grýlu og Leppalúða.

Í ár er uppátæki jólasveinanna að gefa í skóinn gefinn sérstakur gaumur. Hvað hafa börn fengið í skóinn í gegnum tíðina og af hverju gefa jólasveinarnir í skóinn? Á sýningunni er gefin innsýn inn í þennan skemmtilega sið en jafnframt gefst gestum tækifæri til að láta ljós sitt skína. Á sýningartímanum stendur Minjasafnið á Akureyri fyrir heimildasöfnun varðandi þennan sið jólasveinanna að gefa börnum í skóinn. Fylgist með á heimasíðu og samfélagsmiðlum safnsins þar sem spurningaskrá verður birt. Leitað er eftir upplýsingum um samskiptum við sveinana. Óskað er eftir frásögnum fólks á öllum aldri – bæði þeirra sem jólasveinarnir heimsóttu ekki sem og hinna.

Jólasýningin er opin alla daga frá kl. 13-16 frá 16. nóvember til 11. janúar. Frítt er fyrir 18 ára og yngri en 50% afsláttur á aðgangseyri fyrir aðra gesti.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan