Jólakveðja frá bæjarstjóra

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri sendir bæjarbúum og landsmönnum öllum hugheilar jólakveðjur og óskir sínar um farsælt komandi ár. 

„Jól og áramót eru góður tími. Þá gleðst fólk yfir því að sólin fer senn að hækka á lofti. Það iðkar sína trú eða upplifir hátíðina á eigin forsendum og samverustundirnar með fjölskyldunni eru dýrmætar. Njótum þess að vera í góðum samskiptum við vini okkar og fjölskyldu yfir hátíðarnar og á nýju ári. Hugum að velferð barnanna, stöndum vörð um æsku þeirra og fölskvalausa gleði. Munum eftir þeim sem eiga um sárt að binda, þeim sem eru einir eða eiga ekki í nein hús að venda, þeim sem hafa misst nána ástvini og kljást við söknuðinn og sorgina.

Hvert nýtt ár felur í sér ný tækifæri fyrir bæinn okkar sem heldur áfram að vaxa og dafna. Við bjóðum nýja íbúa velkomna til að njóta þess sem Akureyri hefur að bjóða, hvort sem fólk kemur frá öðrum landshlutum, nágrannalöndum okkar eða framandi slóðum. Ég bind vonir við að nýja árið verði okkur gifturíkt og muni styrkja Akureyri á allan hátt. Bærinn sem hefur verið kallaður höfuðborg hins bjarta norðurs er miðstöð menningar og þjónustu við allar landsbyggðirnar og með bættum samgöngum í lofti og á láði mun þetta hlutverk okkar verða æ sýnilegra og mikilvægara.

Framtíðarsýn okkar Akureyringa er björt og grunnstoðirnar sterkar.

Fyrir hönd bæjarstjórnar Akureyrar óska ég ykkur öllum gleðilegrar hátíðar, árs og friðar.“

Eiríkur Björn Björgvinsson

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan