Íhugar ekki lengur framboð

Eiríkur Björn Björgvinsson.
Eiríkur Björn Björgvinsson.

Sem kunnugt er hafði Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, velt fyrir sér þeim möguleika að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands. Eiríkur Björn sendi í morgun frá sér yfirlýsingu þar sem hann tekur af öll tvímæli um að hann hyggist ekki bjóða sig fram á þeim vettvangi.

Yfirlýsing Eiríks er þessi:

Fyrir fjórum árum fékk ég áskoranir um að gefa kost á mér til embættis forseta Íslands en gerði lítið með það á þeim tíma. Fræi hafði engu að síður verið sáð og eftir því sem tíminn leið velti ég þessum möguleika fyrir mér og gerðist áhugasamari um að vinna hugmyndum mínum um embættið fylgi.

Mínar helstu áherslur eru að eyða óvissu um stjórnskipun landsins og stjórnarskrána, þ.á m. stöðu forsetaembættisins, tala fyrir aukinni siðvæðingu og virðingu í samfélaginu og mikilvægi mannréttinda. Síðast en ekki síst þá vil ég miðla málum meðal ólíkra hópa og stuðla að sáttum en þar er sannarlega verk að vinna. Þegar sitjandi forseti tilkynnti að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri höfðu fjölmargir samband við mig og hvöttu mig til að fara fram með þessar áherslur og jafnframt að nýta reynslu mína sem bæjarstjóri af stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.

Eftir að Ólafur Ragnar breytti afstöðu sinni og tilkynnti óvænt að hann hygðist bjóða sig fram í sjötta sinn kallaði það á endurmat af minni hálfu. Ég hafði áhuga á að takast á við umræðu um stöðu forsetaembættisins eftir brotthvarf Ólafs Ragnars en ekki að etja kappi við hann um embættið.

Sem sitjandi forseti til 20 ára hefur Ólafur Ragnar mikið forskot á aðra frambjóðendur. Því breytir þátttaka hans í kosningabaráttunni væntanlega umræðunni sem fer fram um embættið með sama hætti og gerðist árið 2012. Búast má við að meira verði rætt um persónu hans en embættið sjálft og þau málefni sem forseti getur beitt sér fyrir.

Ólafur Ragnar hefur að mörgu leyti verið farsæll í embætti. Það er hins vegar afar óheppilegt að  hann sýni öðrum frambjóðendum ekki þá virðingu að gefa út skýra yfirlýsingu tímanlega og standa við orð sín.

Í samfélagi okkar eru fjölmargir sem geta gegnt embætti forseta Íslands með miklum sóma óháð því hvaða ástand ríkir og lýðræðislegar kosningar eru einmitt besta leiðin til farsællar endurnýjunar.

Ég þakka öllum sem hafa hvatt mig og stutt í undirbúningi þess að bjóða fram krafta mína, en að þessu sinni hyggst ég ekki sækjast eftir því að gegna embætti forseta Íslands. 

Eiríkur Björn Björgvinsson

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan