Hvalaskoðun frá Akureyri vex fiskur um hrygg

RIB bátur.
RIB bátur.

Hvalaskoðunarfyrirtækið Whale Safari hefur ákveðið að hefja starfsemi á Akureyri næsta vor en aðstæður til hvalaskoðunar þykja einkar hagstæðar í Eyjafirði. Fyrirtækið Ambassador gerir nú þegar út frá Akureyri og hefur í sumar séð hvali í öllum sínum ferðum. Því má segja að hvalaskoðun frá Akureyri vaxi nú verulega fiskur um hrygg.

Í fréttatilkynningu frá Whale Safari segir að í Eyjafirði sé sjólag gott og fjallasýn, enda uni hnúfubakar þar hag sínum vel í einum allra fallegasti firði lands. Fyrirtækið hyggist gera tvo sérhæfða hvalaskoðunarbáta út frá Akureyri og fara sína fyrstu ferð þaðan 15. maí 2016.

"Við munum bjóða upp á ótrúlega nálægð við dýrin og hafið í sérsmíðuðum RIB bátum. Þeir fara hratt yfir og koma viðskiptavinum okkar nær en hægt er að ímynda sér, án þess að trufla gang náttúrunnar. Einungis eru 12 farþegar í hvorum bát með sérþjálfuðum leiðsögumanni og skipstjóra. Þessir hraðskreiðu bátar tryggja að alltaf er hægt að reka ferðir frá Akureyri, burtséð frá staðsetingu hvalana í firðinum," segir jafnframt í fréttatilkynningunni frá Whale Safari.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan