Háskóladagurinn í fyrsta sinn í VMA og MA

Frá Háskóladeginum í Reykjavík.
Frá Háskóladeginum í Reykjavík.

Háskóladagurinn verður með kynningu á háskólanámi á Akureyri fimmtudaginn 17. mars. Kynningar fara fram í Verkmenntaskólanum á Akureyri kl. 9.30 til 11 og í Menntaskólanum á Akureyri frá kl. 13 til 14.30. Þetta er í fyrsta sinn sem Háskóladagurinn kynnir bæði í VMA og MA. Háskólarnir hafa alltaf einungis kynnt í VMA.

Allir háskólar á Íslandi standa í sameiningu fyrir Háskóladeginum sem fór fram í Reykjavík laugardaginn 5. mars frá kl. 12 til 16. Eftir þann dag héldu háskólarnir í ferð um landið til að kynna þær námsleiðir sem eru í boði.

Háskólarnir koma til Akureyrar, og ferðast um landið, til að sem flestir hafi aðgang að góðum námskynningum. Kynningarnar á Akureyri er einstakt tækifæri fyrir þá sem ætla að hefja háskólanám næsta haust eða vilja skoða hvaða möguleikar eru í boði.

Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Háskólinn í Reykjavík, Landbúnaðarháskóli Íslands og Listaháskóli Íslands kynna námsframboð sitt, á grunn- og framhaldsstigi.

Háskóladagurinn veitir framtíðarnemendum tækifæri til þess að hitta námsráðgjafa, kennara, starfsmenn og nemendur háskólanna svo þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um námsval. Allir eru velkomnir og hvetja háskólarnir fólk á öllum aldri til þess að mæta og kynna sér fjölbreytileikann sem ríkir innan veggja háskólanna.

Háskóladagurinn á Akureyri á Facebook: https://www.facebook.com/events/1752995194987188/


Háskóladagurinn á vef og samfélagsmiðlum:

www.haskoladagurinn.is

www.facebook.com/haskoladagurinn

www.instagram.com/haskoladagurinn

#hdagurinn 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan