Hafdís er íþróttamaður Akureyrar 2014

Hafdís Sigurðardóttir. Mynd: Þórir Tryggvason.
Hafdís Sigurðardóttir. Mynd: Þórir Tryggvason.

Frjálsíþróttakonan Hafdís Sigurðardóttir úr UFA er íþróttamaður Akureyrar árið 2014. Viktor Samúelsson úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar varð annar og Einar Kristinn Kristgeirsson úr Skíðafélagi Akureyrar þriðji. Haraldur Sigurðsson var gerður að heiðursfélaga ÍBA.

Kjöri íþróttamanns Akureyrar var lýst í verðlaunahófi á vegum Íþróttabandalags Akureyrar og Íþróttaráðs Akureyrarbæjar sem fram fór í Menningarhúsinu Hofi síðdegis í gær. Alls tilnefndu sautján aðildarfélög íþróttamann ársins úr sínum röðum. Hafdís er íþróttamaður Akureyrar annað árið í röð en í fyrra varð hún fyrsta frjálsíþróttamanneskjan sem hlýtur þessa nafnbót.

Hafdís er í Ólympíuhópi FRÍ 2016, hefur gert atlögu að Íslandsmeti í 100 metra hlaupi og setti Íslandsmet í langstökki, bæði innan og utanhúss á árinu. Besti árangur hennar í langstökki á árinu var 6,72 metrar og er það vel yfir Ólympíulágmarki. Hafdís var í fararbroddi frjálsíþróttalandsliðsins sem keppti í 3. deild Evrópukeppninnar. Þar keppti hún í fimm greinum, var ýmist í fyrsta eða öðru sæti í þeim öllum og setti Íslandsmet í langstökki. Hún var stigahæst keppenda íslenska liðsins og hjálpaði verulega til við að koma liðinu upp um deild.

Þetta er í 36. sinn sem íþróttamaður Akureyrar er heiðraður en það var fyrst gert árið 1979. Alls hafa 20 einstaklingar hlotið þessa nafnbót, oftast allra júdókappinn Vernharð Þorleifsson, sjö sinnum.

Íþróttabandalag Akureyrar gerði Harald Sigurðsson að heiðursfélaga en hann varð níræður í gær. Haraldur á að baki áratuga starf í þágu íþróttahreyfingarinnar, meðal annars sem formaður KA og í stjórnum fleiri félag og sambanda. Hann er heiðursfélagi í mörgum félögum og samböndum og hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir starf sitt að íþrótta-, menningar- og félagsmálum. Haraldur á einnig að baki mikið starf við sagnaritun í þágu íþróttahreyfingarinnar.

Við sama tækifæri veitti íþróttaráð Akureyrarbæjar þremur einstaklingum heiðursviðurkenningu en það voru þau Björg Finnbogadóttir, Nói Björnsson og Sigfús Ólafur Helgason. Þá fengu forsvarsmenn íþróttafélaga á Akureyri afhenta styrki og viðurkenningar vegna Íslandsmeistara og landsliðsfólks úr þeirra röðum á árinu 2014. Alls urðu 200 einstaklingar úr akureyrskum íþróttafélögum Íslandsmeistarar á árinu og 118 einstaklingar tóku þátt í landsliðsverkefnum.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan