Græna trektin

Akureyringar hafa lengi verið í fararbroddi og algjörlega til fyrirmyndar þegar kemur að því að flokka og endurvinna úrgang frá heimilum. Flestir leggja áherslu á að flokka fernur, pappa, niðursuðudósir, plast og fleira, og nú er röðin komin að matarolíu og fitu.

Frá og með deginum í dag verður hægt að nálgast "grænu trektina" í þjónustuanddyri Ráðhússins að Geislagötu 9, í þjónustuveri Norðurorku og á gámasvæðinu við Réttarhvamm. Þá verður trektin kynnt á Glerártorgi á morgun, föstudag, frá kl. 16-18.30 og á laugardag kl. 12-16.

Afgangsolía og -fita verður endurunnin hjá Orkey sem býr til lífdísel úr henni eða hún verður nýtt til jarðgerðar hjá Moltu. Þannig eru verðmætin endurnýtt en einnig má með þessu átaki koma í veg fyrir að fitan lendi í fráveitukerfi bæjarins, búi þar til stíflur og fari illa með dælur og annan búnað.

Því er mikilvægt að fanga fituna við upptök hennar, þ.e. á heimilum og í fyrirtækjum, í stað þess að setja hana í fráveituna þar sem síðan er reynt að hreinsa hana úr fráveituvatninu í hreinsistöðvum með miklum tilkostnaði áður en skólpið fer út í Eyjafjörðinn fagra.

Hér er um langtímaverkefni að ræða þar sem mikilvægt er að ná góðu samstarfi við bæjarbúa en ekki síður veitingastaði og eldhús í fyrirtækjum víðsvegar um bæinn.

Með trektinni fylgja eftirfarandi leiðbeiningar:

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan