Fyrsta freisting vetrarins

Jón Sigurðsson píanóleikari.
Jón Sigurðsson píanóleikari.

Fyrstu hádegistónleikar vetrarins hjá Tónlistarfélagi Akureyrar í tónleikaröðinni Föstudagsfreistingar verða næstkomandi föstudag í Hömrum í Menningarhúsinu Hofi og hefjast kl 12.15. Þar leikur Jón Sigurðsson píanóleikari efnisskrá tileinkaða rússneska tónskáldinu Alexander Scriabin (1872-1915) en á þessu ári eru hundrað ár liðin frá dauða hans. Jón leikur fjölbreytta efnisskrá frá mismunandi tímabilum í ævi Scriabins en verk hans þróuðust mikið á æviferli hans. 

Jón Sigurðsson hefur lokið meistaraprófi í píanóleik frá Arizona State University í Bandaríkjunum, burtfarar- og píanókennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og meðleikaranámi frá Söngskóla Sigurðar Demetz. Auk þess hefur hann kynnt sér Funktionale Methode. Jón hefur haldið einleikstónleika regulega og komið fram með fjölmörgum hljóðfæraleikurum og söngvurum. Polarfonia Classics hefur gefið út tvo geisladiska þar sem Jón leikur m.a. verk eftir Scriabin, Barber, Schumann, Mozart, Strauss.

Miðaverð er 2.000 krónur, 1.500 krónur fyrir aldraða, námsmenn og félagsmenn í Tónlistarfélagi Akureyrar. Hægt er að kaupa mat hjá 1862 Nordic Bistró og taka með sér inn í sal og borða ef menn vilja. Miðasala er á www.mak.is og í miðasölu Hofs.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan