Fyrirlestraröð í Ketilhúsinu

Ketilhúsið á Akureyri.
Ketilhúsið á Akureyri.

Þriðjudaginn 30. september kl. 17 heldur Angela Rawlings fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Wild slumber for industrial ecologists (Villtar svefnfarir iðnaðarvistfræðinga). Þar mun hún meðal annars fjalla um samnefnda sýningu sem nú stendur yfir í Verksmiðjunni á Hjalteyri.

Sýningin er árangur af samstarfi myndlistarmanna, rithöfunda og tónlistarmanna sem undanfarið hafa dvalið í alþjóðlegri gestavinnustofu á Hjalteyri. Ásamt Rawlings eru þau Elsa Lefebvre (Frakkland/Belgía), Gústav Geir Bollason (Ísland), Maja Jantar (Belgía) og Philip Vormwald (Frakkland/Þýskaland) þátttakendur í sýningunni. Eitt umfjöllunarefni hennar er iðnaðarvistfræði og rannsóknir á flæði efnis og orku í iðnaðarkerfum. Iðnaðarvistfræðingar rannsaka þróun á sjálfbærum og lokuðum kerfum þar sem úrgangur eins iðnaðar getur verið auðlind annars.

Fyrirlesturinn fer fram á ensku en hann er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.

Fyrirlesturinn er sá fyrsti í röð fyrirlestra sem haldnir verða á hverjum þriðjudegi í Ketilhúsinu kl. 17 í allan vetur. Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Á meðal fyrirlesara vetrarins eru Hlynur Helgason listfræðingur, Íris Ólöf Sigurjónsdóttir sýningarstjóri og myndlistarmennirnir Aðalsteinn Þórsson, Arna Valsdóttir, Stefán Boulter og Guðmundur Ármann Sigurjónsson.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan