Franska kvikmyndahátíðin á Akureyri

Auglýsing fyrir sýningarnar á Akureyri.
Auglýsing fyrir sýningarnar á Akureyri.

Alliance française í Reykjavík, sendiráð Frakklands á Íslandi og Græna ljósið í samstarfi við Akureyrarstofu kynna Franska kvikmyndahátíð sem teygir anga sína til Akureyrar og verður haldin 26. janúar til 2. febrúar í Borgarbíói. Franska kvikmyndahátíðin er annar stærsti kvikmyndaviðburður á Íslandi, næst á eftir Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík.

Á þessari kvikmyndahátíð verður lögð mikil áhersla á fjölbreytni, sem er meginþema myndanna, og þær eru frá ýmsum löndum en allar á frönsku. Þarna verða myndir sem hafa hlotið metaðsókn, myndir með eindregnum höfundareinkennum, myndir frá Frakklandi, Bandaríkjunum, Kanada og Fílabeinsströndinni, mikið úrval þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Við opnun hátíðarinnar verður sýnd myndin Ömurleg brúðkaup (Qu'est-ce qu'on a fait au Bon Dieu?). Myndin hefur slegið í gegn um allan heim og dró til sín 12 miljónir áhorfenda í Frakklandi. Slíkur fjöldi hafði ekki sótt í kvikmyndahús frá því að Les Intouchables var sýnd. Myndin segir frá kaþólskum sómahjónum sem eiga fjórar dætur. Hjónin vonast til að dæturnar giftist vænum og kaþólskum piltum en það dofnar yfir þeim með hverjum nýjum tengdasyninum. En kannski sá fjórði verði þeim að skapi...? Þetta er gamanmynd um það hvernig ólíkur uppruni og ólík trú geta blandast saman í litríkri fjölskyldu. Kímni og umburðarlyndi sem einkenna myndina. Sýnd með íslenskum texta.

Önnur mynd, sem er að hljóta metaðsókn í Frakklandi þessa dagana, er Bélier-fjölskyldan (La famille Bélier). Ung sveitastúlka kemst að því að hún er með fágæta rödd. Hana langar að leggja fyrir sig söng en foreldrar hennar og bróðir eru heyrnarlaus og reiða sig á hana í daglegu lífi. Hvað getur hún tekið til bragðs? Franskir gagnrýnendur spá því að þetta verði mynd ársins 2015. Hvað heldur þú? Sýnd með enskum texta.

Aðrar myndir sem sýndar verða á Akureyri eru Laurence hvernig sem er (Laurence Anyways) eftir ungan kanadískan snilling, Xavier Dolan (sýnd með enskum texta), Lulu nakin (Lulu femme nue) eftir fransk-íslenska leikstjórann Sólveigu Anspach (sýnd með enskum texta) og Lyktin af okkur (The Smell of Us) sem kemur glóðheit frá Frakklandi þar sem hún var frumsýnd 14. janúar sl. (sýnd með íslenskum texta).

Sýningartíma kvikmynda og nánari upplýsingar má finna á vefsíðu hátíðarinnar, www.fff.is.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan