Farfuglarnir flestir komnir

Mynd: Eyþór Ingi Jónsson.
Mynd: Eyþór Ingi Jónsson.

Flestar tegundir farfugla eru komnar í Eyjafjörðinn. Fyrstu kríurnar sáust í byrjun vikunnar sem var viðbúið því kríurnar koma yfirleitt norður um mánaðamót apríl-maí og hefja varp undir lok maí. Krían er sá fugl í heiminum sem leggur lengsta vegalengd að baki milli varpstöðva við Ísland og vetrarstöðva við Suðurskautslandið eða alls um 35 þúsund km hvora leið.

Heiðlóan er enn sem komið er frekar fáliðuð við Eyjafjörð sem er óvanalegt en nú eru hópar farnir að sjást, þannig að þetta er allt að koma. Álftir eru lagstar á hreiður á nokkrum stöðum, auðnutittlingar byrjaðir að verpa og skógarþrastarhreiður tilbúin undir varp.

Í morgun sást til súlna við Pollinn en þær þvælast hingað inn fjörðinn flest vor. Þær eru að elta æti og stoppa yfirleitt stutt. Það er því tilvalið að hafa augun hjá sér og fylgjast með þessum skemmtilegu gestum, sérstaklega þegar þeir stinga sér eftir æti en þá er talað um súlukast.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan