Fagrir og vel hirtir garðar

Að venju voru á Akureyrarvöku veittar viðurkenningar fyrir góðan árangur í fegrun og hirðingu garða 2014.

Í dómnefnd að þessu sinni voru Guðrún K. Björgvinsdóttir yfirverkstjóri garðyrkjumála, Jón Birgir Gunnlaugsson forstöðumaður umhverfismála og Matthildur Ásta Hauksdóttir forstöðumaður Lystigarðs Akureyrar. Matjurtagarð 2014 valdi Jóhann Thorarensen garðyrkjufræðingur í ræktunarstöð Akureyrar.

Niðurstöður og umsagnir dómnefndar voru þessar:

Hólatún 9
Eigendur: Jón Bragi Skírnisson og Sigurbjörg Helga Pétursdóttir.

Skemmtileg lóð með fjölbreytt plöntuval, þar sem litir og blöð plantna fá að njóta sín í þéttu laufskrúði. Dvalarstaður tvinnast skemmtilega við garðinn og verður hluti hans. Snyrtileg hellulögð aðkoma þar sem plöntur í pottum og rósir eru áberandi. Norðan við húsið er snyrtileg grasflöt sem afmarkast af klipptu limgerði og fallegum seljum.

Hindarlundur 2
Eigendur: Vilhelm Ágústsson og Edda Vilhjálmsdóttir.

Falleg lóð á alla kanta og aðdáunarvert hversu vel hún er hirt. Aðkoman hellulögð og umlukin gróskumiklum fallegum gróðri. Dvalarstaður vestan við húsið er í skjóli og þar er lítil tjörn sem setur skemmtilegan svip á garðinn. Norðan við húsið eru skemmtilegar hringlaga stiklur í fallegu fjörugrjóti. Plöntur sem eru hávaxnar eru klipptar til að hemja vöxt. Snyrtilegir skjólveggir afmarka lóðinna og falla vel inn í gróðurinn. Eigendurnir þau Vilhelm og Edda hafa áður fengið viðurkenningu fyrir garðinn en það var árið 2002.

Háskólinn á Akureyri (fyrirtæki)
Stofnun: Háskólinn á Akureyri.

Mjög falleg lóð á alla kanta og vel hirt. Aðkoman hellulögð og mjög snyrtileg, má meðal annars sjá trjágróður í afmörkuðum beðum við bílastæði. Grasflatir mjög fallegar og vel afmarkaðar með runnabeðum. Látlaus tjörn við innganginn. Gróðurlega séð er greinilega verið að hugsa um að hafa lóðinna fallega frá vori til hausts. Í heildina vel skipulögð og mjög snyrtileg lóð.

Aðalstræti 68 (eldri garður)
Eigandi: Auður Magnúsdóttir.

Eldri garður sem hefur fengið góða andlitslyftingu á síðustu árum. Falleg framlóð með snyrtilegri grasflöt og steyptri stétt. Gömul flúruð girðing setur svip sinn á aðkomuna. Baklóðin er ekki síðri, þar hefur hallinn í brekkunni verið brotinn upp með fallegum vegghleðslum. Fyrir ofan hvern vegg eru blómabeð með mjög fjölbreyttum fjölærum plöntum. Grasflatirnar sem eru í miklum halla eru mjög vel slegnar og lóðarmörkinn afmörkuð með vel klipptum limgerðum. Í heildinna mjög áhugaverð og ákaflega vel hirt lóð.

Matjurtagarður ársins 2014

Garður Jóns Óskarssonar og Ragnheiðar Brynjólfsdóttur nr. 85 b hefur hlotið viðurkenningu fyrir framúrskarandi útlit. Jón og Ragnheiður hafa stundað matjurtagarð sinn af alúð og umhyggju enda er uppskera þeirra góð.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan