Fyrstu hraðhleðslustöðvarnar á Akureyri teknar í notkun

Páll Erland, framkvæmdastjóri ON ásamt Auði, Óskari og dætrum.
Páll Erland, framkvæmdastjóri ON ásamt Auði, Óskari og dætrum.

Tvær nýjar hraðhleðslustöðvar frá Orku náttúrunnar (ON) hafa nú verið teknar í notkun á Akureyri. Hraðhleðslustöðvar eru nú orðnar tólf talsins og eru víða um land. Vistorka er samstarfsaðili ON í verkefninu og að því koma einnig verslunarmiðstöðin Glerártorg, Akureyrarbær og Menningarfélagið Hof.

Stöðvarnar á Akureyri eru við Menningarhúsið Hof og verslunarmiðstöðina Glerártorg. ON hefur verið í forystu við uppbyggingu hraðhleðslustöðva fyrir rafbíla hér á landi. Við uppsetningu þeirra hefur fyrirtækið haft samstarf við fjölda aðila, sem lagt hafa þessu umhverfisverkefni lið. 

Rafbílaeigendur fylltu á

Það voru rafbílaeigendur nyrðra sem fyrstir hlóðu bíla sína í nýju stöðvunum. Garðar Jónsson, sem ekur á Volkswagen E-Golf, er himinlifandi yfir skiptunum í rafbíl. Hann átti áður íburðarmikla jeppa en segir rafbílinn sinn standa þeim jafnfætis í þægindum. „Þetta er alvöru bíll sem líður áfram í þögninni en kraftmikill þegar gefið er inn,“ segir Garðar. „Hann stóð sig frábærlega í vetrarfærðinni og hefur ekki slegið feilpúst,“ bætir hann við og segir hraðhleðsluna skipta miklu máli. „Þá erum við ekki háð heimahleðslustöðinni en getum skellt bílnum í hleðslu þegar við kaupum í matinn, eða skreppum á kaffihús.“

Óskar Þór Vilhjálmsson og Auður Thorberg Jónasdóttir búa í Eyjarfjarðarsveit og sækja vinnu til Akureyrar, 25 kílómetra leið. Þau skiptu úr fjórhjóladrifnum bensínbíl yfir í Nissan Leaf, sem Óskar segist hafa reynst þeim frábærlega í vetur. Heitur á morgnana en vissulega eyði hann meira rafmagni þegar frostið er komið í 20 stig. Hann fagnar hraðhleðslustöðvunum. „Þetta auðveldar okkur lífið þegar við þurfum að fara tvisvar á dag til Akureyrar og heimsóknir á Dalvík og í Svarfaðardalinn verða auðveldari,“ segir Óskar. „Fyrir veskið er þetta tvímælalaust mikill kostur,“ bætir hann við, „en svo eru aðrir kostir sem skipta okkur máli, til dæmis að það er enginn útblástur, hann er tæknilegur, hann er hljóðlátur og hann getur hitað sig á morgnana sem var frábært í vetur í snjónum.“

Vistorka í rafmagnið

Vistorka er norðlenskt umhverfisfyrirtæki sem framleiðir umhverfisvænt eldsneyti með sjálfbærri nýtingu hráefnis sem fellur til á Eyjafjarðarsvæðinu. Fyrirtæki framleiðir metan úr sorpi og lífdísil úr matarolíu, sem annars færi til spillis. Með samstarfinu við ON hefur fyrirtækið nú einnig haslað sér völl á sviði rafvæðingar samgangna. Vistorka er dótturfyrirtæki Norðurorku, orku- og veitufyrirtækis Akureyrarbæjar og fleiri sveitarfélaga við Eyjafjörð.

Dýrmæt reynsla fengist

Rúm tvö ár eru síðan ON opnaði fyrstu hraðhleðslustöðvarnar hér á landi. Páll Erland, framkvæmdastjóri ON, segir dýrmæta reynslu hafa fengist af rekstri þeirra. „Við hjá Orku náttúrunnar lögðum af stað í þetta tilraunaverkefni fyrir tveimur árum því við viljum sjá Íslendinga nota okkar endurnýjanlegu orku í staðinn fyrir innflutt jarðefnaeldsneyti í samgöngum. Það er skynsamlegt fyrir umhverfið og fyrir veskið,“ segir Páll og bendir á að á þessum tíma hafi rafbílum stórfjölgað hér á landi. „Við erum stolt af þessu verkefni og vonandi á það sinn þátt í þessari ánægjulegu þróun.“

„Þeir fjölmörgu aðilar sem hafa komið að uppbyggingu þessa nets hraðhleðslustöðva eiga heiður skilinn. Það þurfa nefnilega margir að leggja hönd á plóg ef við Íslendingar eigum að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur í loftslagsmálum,“ segir Páll.

Orka náttúrunnar selur rafmagn til heimila og fyrirtækja um land allt. 

Ljósmynd: Akureyrarstofa/Þórgnýr Dýrfjörð.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan